Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Við höfum breytt vinnuaðferðum okkar töluvert að undanförnu. Fjarfundir sem áður þóttu erfiðir, jafnvel ómögulegir með öllu, eru nú daglegt brauð. Margir hafa lagt á sig að læra nýja tækni. Við leikum okkur með skrautlega bakgrunna og höfum gaman að þessu.

Við sjáum að við getum líka sparað tíma. Hvers vegna ættu forsvarsmenn sveitarfélaga að þurfa að ferðast landshorna á milli til að ná tali af starfsmönnum ríkisstofnanna í höfuðborginni? Löngum ferðalögum erlendis má skipta út fyrir vel skipulagða og hnitmiðaða fjarfundi. Reynsla Umhverfisstofnunar af fjarfundum er sú að oft er gott að hittast í upphafi samstarfs til að efla tengslamyndun en svo er upplagt að taka fjarfundi í framhaldinu.

Mikilvægt er að við nýtum þennan lærdóm og drögum úr sóun, bæði sóun á tíma opinberra starfsmanna en ekki síður sóun í formi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fylgir akstri og flugi. Slíkar aðgerðir eru nauðsynlegar eigi viðunandi árangur að nást í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Umhverfisstofnun býður samstarfsaðilum og þeim sem eiga erindi við stofnunina upp á fjarfundi og hvetur til notkunar þeirra. Nú og framvegis erum við líka til staðar til að hittast og fara yfir málin þegar þörf er á.