Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur breytt leyfi ORF Líftækni hf. (kt:420201-3540) í Grænu smiðjunni að Melhólabraut í Grindavík, fyrir afmarkaða notkun erfðabreyttra plantna. Breytingin felst í meðhöndlun úrgangs þar sem nú er heimilað að senda plöntuleifar í moltugerð eftir hitameðferð í stað þess að einungis heimila brennslu. Er þetta gert til að minnka kolefnisspor starfseminnar sem Umhverfisstofnun þykir jákvætt.

Nánari upplýsingar um tilkomu breytingarinnar má finna í greinargerð með breyttu leyfi.

Leitað var álits ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur sem óskuðu eftir frekari upplýsingum frá umsækjanda. ORF Líftækni hf. skilaði upplýsingum um prófanir á lifun fræja eftir hitameðferð. Ráðgjafanefnd skilaði umsögn sinni eftir að hafa farið fyrir þær viðbótarupplýsingar og niðurstöður prófana. Athugasemdum sem ráðgjafanefndin setti í umsögn sína hefur verið svarað af umsækjanda á fullnægjandi hátt að mati Umhverfisstofnunar.

Starfsemin sem hér um ræðir fellur undir lög um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 og reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera. Umhverfisstofnun tekur fram að breyting heimildar um meðferð plöntuleifa felur ekki í sér breytingu á afmörkunarflokkun starfseminnar né afmörkunarráðstafana sem leyfishafi þarf að uppfylla skv. 2. viðauka reglugerðar nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.

Ákvörðun hefur verið tekin um að breyta leyfinu en það hefur óbreyttan gildistíma. Allar efnislegar breytingar á leyfinu eru í  hornklofa og gert er grein fyrir þeim í fótnótu í breyttu leyfi. Einnig voru gerðar aðrar útlitsbreytingar og uppfærslur á leyfinu sem ekki teljast til efnislegra breytinga.

Ákvarðanir Umhverfisstofnunar er varða breytingu á leyfum eru samkvæmt 29. gr. laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur og sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er þrír mánuðir til og með 15. júní 2020. Aðsetur nefndarinnar er í Borgartúni 21, Höfðaborg, 105 Reykjavík.

Fylgiskjöl