Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Uppgjöri íslenskra þátttakenda í viðskiptakerfi ESB er lokið og hefur landsstjórnandi skráningarkerfisins birt helstu niðurstöður uppgjörsins hér. Raunlosun íslenskra flugrekenda dróst saman um 37,6 % á milli áranna 2018 og 2019, sem útskýrist af færri þátttakendum í kerfinu. Athygli vekur að losun jókst mikið á árunum 2016 til 2018 og því er losun ársins 2019 svipuð og losunin var 2015 þrátt fyrir að einn af stóru flugrekendunum hafi heltst úr lestinni.

Heildarlosun flugrekenda sem falla undir Ísland innan gildissviðs ETS á árunum 2013-2019

Fjórum flugrekendum bar að skila losunarskýrslu og voru þeir allir íslenskir. Losun frá flugi er þó háð takmörkunum að því leytinu til að hún er einungis losun innan EES svæðisins og tekur því ekki á heildarlosun flestra flugrekenda, þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki innan gildissviðs kerfisins eins og er.

Heildarlosun frá flugi íslenskra flugrekenda sem fellur undir kerfið var 596.124 tonn CO2 ígilda. Heildarlosun allra evrópskra flugrekenda innan ETS kerfisins var 68,14 milljón tonn CO2 árið 2019.

Losunin í iðnaði dróst lítillega saman á milli ára, eða um 2,57%. Jafnmargir rekstraraðilar í iðnaði gerðu upp fyrir árið 2019 og árið á undan, eða sjö talsins.

Heildarlosun íslenskra rekstraraðila í iðnaði sem falla undir kerfið var 1.807.063 tonn af CO2 árið 2019. Heildarlosun allra evrópskra rekstraraðila í staðbundinni starfsemi innan ETS kerfisins var 1.527 milljónir tonna CO2 árið 2019.

Heildarlosun rekstraraðila sem falla undir Ísland innan gildissviðs ETS á árunum 2013-2019
*Rétt er að taka fram að losun Verne Holdings er um 0,002% af heildarlosun rekstraraðila. Samkvæmt umsókn og að öllum lagaskilyrðum uppfylltum geta rekstraraðilar með svo litla losun verið undanskildir ETS-kerfinu frá og með árinu 2021, sbr. 14. gr. laga um loftslagsmál nr. 70/2012 um sérreglur fyrir tilteknar starfsstöðvar.

Heildarlosun bæði flugrekenda og rekstraraðila í iðnaði sem að falla undir Ísland minnkaði því um rúm 10% á milli 2018 og 2019, eða úr 2.675.084 tonnum CO2 ígilda niður í 2.403.187 tonn CO2 ígilda. Innan ETS kerfisins í heild sinni í Evrópu dróst losun saman um 8,7% á sama tíma, þar sem 9% samdráttur var í losun frá staðbundnum iðnaði en 1% aukning í losun frá flugsamgöngum.

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt lista yfir alla þá flugrekendur og rekstraraðila sem hafa gert upp losun sína. Má finna listann hér: https://ec.europa.eu/clima/ets/allocationComplianceMgt.do

Samanburður á losun í flugi og iðnaði sem féll undir gildissvið ETS á árunum 2013-2019

Áhugavert er að bera saman hlutfall endurgjaldslausra losunarheimilda við raunlosun innan kerfisins, en hlutfall endurgjaldslausra losunarheimilda fer sífellt minnkandi, á meðan raunlosun hefur færst í aukana. Þetta þýðir að flugrekendur og rekstraðilar eru að kaupa meira af sínum losunarheimildum á markaði. Við þetta má bæta að verð á losunarheimildum hefur farið hækkandi undanfarin ár. Samanburðinn má sjá hér fyrir neðan.

   

Samanburður á endurgjaldslausum heimildum og raunlosun frá flugi og iðnaði innan gildissviðs ETS á árunum 2013-2019

Um Viðskiptakerfi ESB

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er almennt nefnt ETS (e. Emission Trading System) og gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum. Rekstraraðilum iðnaðar og flugrekendum er úthlutað losunarheimildum í samræmi við staðlaðar reglur sem samsvara fyrirfram ákveðnum takmörkunum. Það sem flugrekendur og rekstraraðilar losa umfram endurgjaldslausar losunarheimildir þurfa þeir að kaupa heimildir á markaði og er kerfinu þannig ætlað að vera hvati til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Kerfið nær utan um 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB og hefur það markmið að árið 2020 verði losun í þeim geirum sem falla undir kerfið 21% lægri en hún var árið 2005, og 43% lægri árið 2030. Þessu á að ná fram með því að fækka endurgjaldslausum losunarheimildum til rekstraraðila um 1,74% ár hvert. Losunarheimildir til flugrekenda fækkuðu um 5% fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020 miðað við meðallosun árin 2004-2005.

Kerfið nær utan um rúmlega 11.000 rekstraraðila í staðbundnum iðnaði og stærstan hluta losunar frá flugi sem sér stað innan EES- svæðisins, en virkir flugrekendur innan ETS voru 776 árið 2015. Ísland, Noregur og Liechtenstein taka þátt í kerfinu í gegnum EES samninginn.

Rekstraraðilar sem falla undir kerfið eru þeir sem hafa uppsett nafnvarmaafl yfir 20 MW, auk allra stöðva sem tilgreindar eru í viðauka tilskipunar ESB nr. 87/2003/EB. Framkvæmdastjórn ESB gefur síðan árlega út lista yfir hvaða flugrekendur falla undir hvaða ríki. Samkvæmt nýjasta listanum falla alls 241 flugrekendur undir stjórn Íslands, þó að langflestir séu undanþegnir gildissviði kerfisins. Þeim flugrekendum og rekstraraðilum iðnaðar sem falla undir kerfið ber að skila vottaðri losunarskýrslu til Umhverfisstofnunar fyrir 31. mars ár hvert og gera upp losunarheimildir fyrir 30. apríl.

Nánari upplýsingar um ETS: https://ust.is/loft/vidskiptakerfi-esb-ets/

Úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda

Flestir flugrekendur og rekstraraðilar fá úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum. Úthlutunin byggir á árangursviðmiði fyrirtækjanna sem ákvarðað hefur verið af framkvæmdastjórn ESB og þurfa þessir aðilar að uppfylla ákveðin viðmið og skila inn umsókn um endurgjaldslausar losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012.

Rekstraraðilar fá úthlutað skv. reglugerð nr. 73/2013 sem er í samræmi við ákvörðun ESB nr. 278/2011 ESB. Sú úthlutun er bundin við línulegan lækkunarstuðul, sem þýðir að úthlutun til fyrirtækja lækkar árlega um 1,74% á viðskiptatímabilinu 2013-2020, og mun lækka um 2,2% árlega á næsta viðskiptatímabili sem verður 2021-2030.

Flugrekendur fá úthlutað skv. reglugerð nr. 100/2016, en sú úthlutun hefur verið minnkuð í samræmi við þrengra gildissvið viðskiptakerfisins í flugstarfsemi sem á sér stoð í V. ákvæði til bráðabirgða í lögum um loftslagsmál nr. 70/2012. Úthlutun til flugrekenda verður einnig bundin við 2,2% línulegan lækkunarstuðul frá og með árinu 2021.

Frekari upplýsingar um úthlutun til einstakra flugrekenda og rekstaraðila má finna hér: http://ec.europa.eu/environment/ets/

Í töflunum hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um úthlutun til flugrekenda og rekstraraðila fyrir losun árið 2018. Úthlutunin er í losunarheimildum og hver heimild jafngildir 1 tonni af CO2.

Flugrekandi  Úthlutun 2019 
    Flugfélag Íslands  8.011 losunarheimildir
    Icelandair 186.364 losunarheimildir 
    Bluebird Cargo 14.058 losunarheimildir 

 

Rekstaraðili
Úthlutun 2019 
    Alcoa Fjarðarál 448.077 losunarheimildir 
    Rio Tinto Alcan á Íslandi 248.629 losunarheimildir 
    Norðurál Grundartangi 353.728 losunarheimildir 
    Elkem Ísland 251.645 losunarheimildir 
    Loðnuvinnslan hf 4.070 losunarheimildir