Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar og Mosfellsbæjar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Álafoss og Tungufoss. 

Drög að báðum áætlum hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Tungufoss ásamt nánasta umhverfi hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 2013. Markmiðið með að friðlýsinga Tungufoss sem náttúruvætti er að vernda fossinn sjálfan sem og menningarminjar innan náttúruvættisins. Svæðið hefur mikið útivistargildi enda fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Álafoss og nánasta umhverfi hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 2013. Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfellsbæjar. Svæðið er fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Stjórnunar- og verndaráætlun er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og auka vernd þess. Markmiðið með gerðinni er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættanna og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins í sem bestri sátt. Áætlunin gildir til 10 ára. Henni fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára sem verður endurskoðuð árlega.
Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Álafoss má sjá hér.
Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Tungufoss má sjá hér.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 12. ágúst 2020.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is, eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.