Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Frá 20. ágúst til 15. mars er almennt heimilt að veiða grágæs og heiðagæs. Ætla má að fjöldi veiðimanna muni halda til veiða næstu daga, sérstaklega þeir sem ætla að veiða heiðagæsir, en sá stofn stendur mjög sterkt og þolir því vel veiði. Síðustu talningar á grágæsastofninum benda hinsvegar til þess að hann sé á niðurleið og eru veiðimenn beðnir að hafa það í huga við veiðar.

Þrátt fyrir að víða sé heimilt að hefja gæsaveiðar 20. ágúst er fjöldi veiðimanna sem fer ekki til gæsaveiða fyrr en eftir mánaðarmótin en þá hefst andaveiðitímabilið. Veiðimenn eru minntir á að óheimilt er að skjóta ófleyga fugla en í upphafi veiðitímabilsins er ákveðin hætta á að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2003 og að veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum hefjast ekki fyrr en 25. september.