Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið eftirlitsverkefninu Plöntuverndarvörur á markaði 2020 þar sem farið var í eftirlit hjá fyrirtækjum sem markaðssetja slíkar vörur hér á landi. Markmiðið var að athuga hvort plöntuverndarvörur í sölu væru með leyfi til að vera á markaði og hvort merkingar á þeim væru í samræmi við gildandi reglur. Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum.

Alls fundust 59 plöntuverndarvörur sem féllu undir umfang eftirlitsins og þar af reyndust 7 vörur (12%) ekki fullnægja skilyrðum efnalaga hvað varðar merkingar. Stofnunin veitti viðeigandi fyrirtækjum tiltekinn frest til úrbóta og hafa þau brugðist við á fullnægjandi hátt.

Ef niðurstöður eftirlitsins eru bornar saman við eftirlit fyrri ára kemur í ljós að dregið hefur umtalsvert úr frávikum frá því að tíðni þeirra var hæst fyrir nokkrum árum og því ljóst að viðleitni fyrirtækja til þess að bæta úr hvað þetta varðar hefur borið árangur. Notkun plöntuverndarvara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu sé ekki rétt með þær farið og því er mjög mikilvægt að réttar merkingar séu til staðar og að farið sé eftir tilmælum sem þar koma fram, til að tryggja örugga notkun.