Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Sumarið 2020 var að mörgu leyti öðruvísi en flest sumur og færri erlendir gestir heimsóttu Ísland í ár. Íslendingar voru aftur á móti mjög duglegir að njóta náttúru Íslands, enda var sérstaklega hvatt til þess með átakinu Stefnumót við náttúruna. Boðið var upp á fræðslugöngur á náttúruverndarsvæðum um allt land og voru landsmenn mjög duglegir að mæta. Sem dæmi í Friðlandi að Fjallabaki, sem er eitt af okkar 119 friðlýstu svæðum  á landinu, þá tóku rúmlega 100 manns þátt í fræðslugöngum þar í júlí mánuði. Boðið var upp á fræðslugöngur 5 daga vikunnar og um 80% af þátttakendum voru Íslendingar. Landverðir höfðu á orði að íslenska tungan yfirgnæfði önnur tungumál í Landmannalaugum, ólíkt því sem verið hefur á undanförnum árum. Upplýsingar um viðburði á náttúruverndarsvæðum má finna á facebook síðu Náttúruverndarsvæða.

Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurðar og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar. Sumarsins 2020 verður minnst sem stóra ferðasumars landsmanna innanlands.

Vonandi hafa landsmenn notið náttúrunnar og fjölbreyttrar fræðsludagskrár á náttúruverndarsvæðum. Landverðir þakka fyrir skemmtilegt sumar og hvetja landsmenn til áframhaldandi stefnumóta við náttúruna. Gleðilegan dag íslenskrar náttúru.