Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisnefnd  Ferðaklúbbsins 4x4 lögðu hönd á plóg í Friðland að Fjallabaki nú á haustmánuðum og tóku að sér það verkefni að setja niður vegstikur innan friðlandsins. Árangurinn með því að merkja vegi á hálendinu með vegstikum er sá að það dregur úr óþarfa utanvegaakstri. Það hefur sýnt sig að á þeim vegum þar sem vegmerkingar eru góðar í friðlandinu, að þar er minna um utanvegaakstur. Þar sem vegir liggja yfir bera sanda er mikilvægt að hafa vegstikur þar sem vegslóðar eiga það til að afmáðst í sandroki og einnig að hverfa alveg sjónum í fyrstu snjóum á haustin. Að auki eru góðar vegmerkingar mikið öryggisatriði. 

Undanfarin ár hefur Ferðaklúbburinn 4x4 lagt Umhverfisstofnun lið og farið í stikuferðir í friðlandið. Samvinna í náttúruvernd er mikilvæg og með því skapast góður vettvangur til samtals milli Umhverfisstofnunar,sem hefur umsjón með friðlandinu, og hagsmunaaðila. 

Umhverfisstofnun þakkar umhverfisnefnd Ferðaklúbbsins 4x4 fyrir framlag sitt og hlakka til áframhaldandi samstarfs.