Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Unnið er að gerð fyrstu vatnaáætlunar fyrir Ísland. Vatnaáætlun inniheldur aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. Í lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála kemur fram að gera skuli umhverfismat fyrir áætlunina í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.

Í umhverfismati áætlana felst að meta skuli áhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið. Markmið umhverfismatsins er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum áætlunarinnar. Vatnaáætlun samrýmist vel markmiðum laga um umhverfismat áætlana. Markmið hennar er að vernda vatn og vistkerfi þess fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Til þess að gæta þess að svo verði er umhverfismati beitt til að leggja mat á líkleg umhverfisáhrif mismunandi valkosta um stefnu áætlunarinnar.

Umhverfisstofnun annast stjórnsýslu á sviði vatnsverndar í samræmi við lög um stjórn vatnamála. Umhverfisstofnun vinnur nú tillögur að gerð fyrrnefndra áætlana að höfðu samráði við fagstofnanir, sveitarfélög, heilbrigðisnefndir, vatnasvæðanefndir, ráðgjafanefndir og aðra hagsmunaaðila. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á gerð umhverfismats fyrir vatnaáætlun Íslands.

Umsagnir eða ábendingar um matslýsingu umhverfismatsins skulu berast á ust@ust.is merkt „Vatnaáætlun“ fyrir 21. nóvember nk.

Sjá hér matslýsingu vatnaáætlunar.