Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um breytingar á starfsleyfum þriggja olíubirgðastöðva. Þær stöðvar sem um ræðir eru á Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði og í Grímsey.

Breytingartillögur voru auglýstar opinberlega á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 6. desember 2021 til og með 4. janúar 2022. 

Breytingarnar koma til vegna þess að í eldri reglugerð um starfsleyfi Umhverfisstofnunar var í gildi ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, sem takmarkaði gildistíma starfsleyfis við fjögur ár, ef ekki væri í gildi deiliskipulag sem gerði ráð fyrir viðkomandi starfsemi. Í umsókn rekstraraðila um breytingu var vísað í að þegar reglugerð nr. 550/2018 tók við hlutverki reglugerðar nr. 785/1999, sem var felld úr gildi og þá féllu niður kröfur um fjögurra ára gildistíma þegar ekki er í gildi deiliskipulag. Olíudreifing ehf. fór fram á að gildistími starfsleyfanna verði samræmdur við önnur starfsleyfi sem gefin voru út á sama tíma fyrir olíubirgðastöðvar þar sem deiliskipulag var til staðar og taldi Umhverfisstofnun rétt að fallast á þetta sjónarmið.

Í 7. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 kemur fram að deiliskipulag þarf ekki að vera til staðar vegna atvinnurekstrar, sbr. IX. viðauka, enda samrýmist starfsemin gildandi aðalskipulagi hvað varðar landnotkun og byggðaþróun og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Kemur þar einnig fram að útgefandi starfsleyfis skuli leita umsagnar viðkomandi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um þessa þætti. Umhverfisstofnun aflaði þessara umsagna og var ekki lagst gegn framlengdum gildistíma í neinu tilfelli.

Laga- og reglugerðartilvísanir í starfsleyfunum hafa verið uppfærðar í þeim tilfellum sem breytingar hafa orðið frá útgáfunni 2018.

Að breytingunum loknum gilda öll starfsleyfin til 31. janúar 2034.

Tengd skjöl:
Starfsleyfi Olíudreifingar í Grímsey
Starfsleyfi Olíudreifingar á Höfn
Starfsleyfi Olíudreifingar á Seyðisfirði