Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Mynd tekin af Facebooksíðu Fiskeldis Austfjarða
Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. Stöðvarfirði. Um er að ræða sjókvíaeldi sem heimilar allt að 7.000 tonna lífmassa á hverjum tíma af ófrjóum laxi.

Framkvæmdin fór í mat á umhverfisáhrifum og birti Skipulagsstofnun álit vegna þessa þann 4. júní 2021. Framkvæmdin rúmast innan burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar fyrir Stöðvarfjörð. Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að eldið muni hafa áhrif vegna uppsöfnunar næringarefna undir og nálægt kvíum og verði talsvert neikvæð. Áhrifin muni ráðast af aðstæðum á hverjum stað og vera að að mestu afturkræf með nægjanlegri hvíld svæða og ef eldi verði hætt. Í því ljósi telur Skipulagsstofnun mikilvægt að svæði séu hvíld nægjanlega og tilhögun eldisins stjórnist að raunástandi á eldissvæðum. Umhverfisstofnun veitti umsagnir í matsferli framkvæmdarinnar.

Að mati Umhverfisstofnunar geta áhrif uppsöfnunar næringarefna orðið talsvert neikvæð á eldissvæðinu en afturkræf og munu því ekki hafa varanleg áhrif á ástand sjávar og botndýralíf. Eldissvæðið er hvílt milli kynslóða þannig að botninn jafni sig á milli.

Umhverfisstofnun bendir á að í tillögu að starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni eru ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða, bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði og það þarfnist frekari hvíldar. Gerð er krafa um vöktun svæða í starfsleyfi sem útfærð eru í vöktunaráætlun rekstaraðila.

Tillaga að starfsleyfi var auglýst á tímabilinu 27. október 2021 til og með 25. nóvember 2021 þar sem hægt var að koma með athugasemdir vegna hennar. Athugasemdir bárust frá þremur aðilum vegna tillögunnar á auglýsingatíma og er þeim svarað í greinargerð. Greinargerð vegna útgáfunnar fylgir aftast í starfsleyfinu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:
Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis Fiskeldis Austfjarða hf. Stöðvarfirði
Starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. Stöðvarfirði
Norrænt BAT
Athugasemdir Alda Vestmann
Athugasemdir Fjarðabyggð
Athugasemdir Magna lögmenn
Endurútgefið burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar