Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Bandaríska herliðið rak ratsjár- og fjarskiptastöð á Heiðarfjalli á árunum 1954-1970 / Ljósmyndari: Auður H. Jónatansdóttir

Dagana 21. – 25. ágúst fóru fram rannsóknir á jarðvegi á Heiðarfjalli í Langanesbyggð. Fulltrúi Umhverfisstofnunar tók þátt í rannsóknunum ásamt sérfræðingum frá Norwegian Geotechnical Institute. 

Skoða útbreiðslu mengunarinnar

Tekin voru sýni af jarðvegi, vatni og byggingarefni. Einnig voru gerðar viðamiklar jarðeðlisfræðilegar rannsóknir til þess að skera úr um það hvar úrgangur sé grafinn og í hve miklu magni. 

Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka ítarlega hvaða mengun er til staðar, í hve miklu magni og afmarka hana.

Ekki æskilegt að dvelja á svæðinu

Frumrannsókn sem fór fram árið 2017 gaf til kynna að svæðið væri mjög mengað. 

Þar mældist m.a. mikill styrkur PCB efna (e. polychlorinated biphenyls) á svæðinu. Styrkur mengunarinnar bendir til að hvorki sé æskilegt fyrir fólk né dýr að dvelja á svæðinu nema í stutta stund og forðast beri að neyta gróðurs og yfirborðsvatns.

Einnig fundust önnur mengandi efni á svæðinu í styrk sem getur haft áhrif á menn, dýr og náttúru. Meðal þessara efna eru blý, sink, úran, kvikasilfur og olíuefni. 

Bandaríska herliðið rak ratsjár- og fjarskiptastöð á Heiðarfjalli á árunum 1954-1970.

Næstu skref

Næstu skref eru að framkvæma áhættugreiningu og einnig verða mögulega framkvæmdar grunnvatnsboranir. Allt þetta er liður í að komast að niðurstöðu um það hvort þörf sé á hreinsun þá hvers konar hreinsun sé nauðsynleg og framkvæmanleg.

Norwegian Geotechnical Institute áætlar að skila niðurstöðum rannsóknanna nú á haustmánuðum og lokaskýrslu með áhættugreiningu í febrúar 2024.

 

Ábendingar um mengaðan jarðveg

Hefur þú grun um mengaðan jarðveg á Íslandi? Endilega komdu ábendingu á framfæri við Umhverfisstofnun á ust.is/mengadur-jardvegur

 

 

Tengt efni: