Stök frétt

Gestir sem koma á einkabílum þurfa að bóka bílastæði fyrir fram í sumar / Mynd: Canva

Opnað hefur verið fyrir bókanir á bílastæðum við Landmannalaugar í sumar. 

Þau sem ætla að koma í Landmannalaugar á einkabílum og bílaleigubílum á milli kl. 8 og 15 á daginn á tímabilinu 20. júní til 15. september þurfa að bóka bílastæði fyrir fram og greiða þjónustugjald.

Bókanir eru gerðar á www.ust.is/bokanir  - Á ensku www.ust/reservations

Skoða algengar spurningar

Bókunar er einungis þörf fyrir bílastæðin í Landmannalaugum sjálfum og hefur því engin áhrif á aðra umferð innan friðlands að Fjallabaki.

Rútur og aðrir ferðaþjónustuaðilar þurfa ekki að bóka fyrirfram í sumar en munu þó þurfa að greiða þjónustugjald ef komið er inn á svæðið á milli kl. 8 og 15. 

Álagsstýring tekin upp

Gripið er til þessarar álagsstýringar til að draga úr umferðarteppu og öngþveiti sem myndast á ákveðnum tíma dags á aðkomuleið og bílastæðum við Landmannalaugar á sumrin. 

Að meðaltali komu rúmlega 300 bílar á dag að Landmannalaugum sumarið 2023. 

Álagið leiðir til þess að bílastæði eru orðin full flesta daga fyrir hádegi og eru það fram eftir degi. Gestir neyðast því til að leggja á vegöxlum og utan vega og út fyrir stæðin sem veldur álagi á viðkvæmt umhverfið. Bílum er lagt á svo til öllum mögulegum blettum meðfram veginum inn að Landmannalaugum sem veldur tilheyrandi þrengslum og umferðarhnútum. Það skapar jafnframt hættu á mjóum vegi.

Það er von Umhverfisstofnunar að þessi aðgerð bæti upplifun og ánægju þeirra sem heimsækja þessa einstöku náttúruperlu.

 

Tengt efni: