Stök frétt

Heildarmagn úrgangs 2022 jókst um 21% frá árinu 2021

Heildarmagn heimilsúrgagns á hvern íbúa dróst saman um 9% á milli áranna 2021 og 2022. Urðun á heimilisúrgangi dróst á sama tíma saman um 24%. 

Heildarmagn úrgangs 2022 jókst um 21% frá fyrra ári. 

Aukning á heildarmagni úrgangs tengist aukningu rekstrarúrgangs og skýrist að stórum hluta af nákvæmari skráningu á magni jarðvegsúrgangs, fremur en mikilli raunaukningu á úrgangi sem féll til.

Heildarúrgangstölur landsins skiptast í heimilisúrgangs og rekstrarúrgang. Rekstrarúrgangur skiptist síðan í iðnaðar- og rekstrarúrgang og úrgang frá mannvirkjagerð.

Árið 2022 skiptist hlutfall úrgangs í 14% heimilisúrgang og 86% rekstrarúrgang.

Þegar litið er til ráðstöfunar úrgangs árið 2022 má sjá að: 

Á grafinu hér að neðan má sjá hvernig ráðstöfunin skiptist milli mismunandi úrgangsflokka.

Endurnýtingarhlutfall úrgangs úr mannvirkjagerð mjög hátt. Því er augljóst að það hlutfall hækkar heildarendurnýtingarhlutfall alls úrgangs sem er í samræmi við tölur fyrri ára. Endurnýtingarhlutfall heimilisúrgangs er heldur lægra. 

Heimilisúrgangur

Heimilisúrgangur (e. municipal waste) er sá úrgangur sem fellur til á heimilum en einnig hjá lögaðilum. Úrgangsflokkar heimilisúrgangs eru 13 talsins og taka á öllu frá umbúðum, pappír og viðarúrgangi til garðúrgangs, raftækja og blandaðs heimilisúrgangs.

Upphaflegar úrgangstölur sögðu til um samdrátt heimilisúrgangs um 6,6% á hvern íbúa á milli 2022 og 2021, þar sem magntölur ársins 2022 voru 623 kg, en 667 kg á hvern íbúa árið 2021. Í ljósi uppfærðra talna um íbúafjölda landsins frá Hagstofu Íslands, var samdrátturinn þó meiri. Íbúafjöldinn hafði áður verið ofmetinn og því voru rauntölur ársins 2021 687 kg á íbúa og raun samdráttur heimilisúrgangs á hvern íbúa 9% á milli ára.

Þrátt fyrir jákvæða þróun milli ára eru 623 kg heimilisúrgangs á hvern íbúa enn töluvert yfir meðaltali ríkja Evrópusambandsins sem árið 2022 var 513 kg á íbúa. 

Í þessu samhengi er vert að nefna að heimilisúrgangur greinir ekki á milli íbúa landsins og ferðafólks, svo úrgangur ferðamanna deilist niður á íbúa landsins.

Um þriðjungur heimilisúrgangs, eða 33%, var urðaður árið 2022 og var samdráttur milli ára á því hlutfalli sem var urðað 24%.

Samkvæmt reglugerð um meðhöndlun úrgangs (nr. 803/2023) verður heimilt að urða að hámarki 10% af þeim heimilisúrgangi sem fellur til árið 2035. Það miðar því í rétta átt hvað varðar lækkun hlutfalls urðunar.

Lækkað hlutfall urðunar heimilisúrgangs skilaði sér þó ekki í aukinni endurvinnslu, þar sem stór hluti endurnýtingar í flokki heimilisúrgangs má skýra með aukinni brennslu með orkuendurnýtinu, fyllingu og annarri endurnýtingu.

Endurvinnsluhlutfall heimilisárgangs fyrir árið 2022 var 23%, sem er minna hlutfall en árið 2021 þegar endurvinnsluhlutfallið var 27%. 

Samkvæmt reglugerð um meðhöndlun úrgangs skal endurvinnsla heimilisúrangs vera að lágmarki 50%. Hlutfallið hækkar síðan upp í 55% fyrir árið 2025, 60% fyrir árið 2030 og 65% fyrir árið 2035. Hér miðar því í öfuga átt og við færumst fjær markmiðum stjórnvalda.

Rekstrarúrgangur

Rekstrarúrgangur skiptist niður í iðnaðar- og rekstrarúrgang og úrgang frá mannvirkjagerð.

Einn undirflokkur úrgangs frá mannvirkjagerð kallast jarðvegur og jarðefni. Heildarmagn í þeim flokki fór úr 693 þúsund tonnum í tæp 911 þúsund tonn milli ára, sem jafngildir um 31% aukningu. 

Aukningin í þessum flokki skýrist að stórum hluta á nákvæmari skráningu á magni jarðvegsúrgangs frekar en mikilli raunaukningu á úrgangi sem féll til. Ef úrgangsflokkur um jarðveg og jarðefni er undanskilinn er aukning heildarúrgangs 5% á milli ára í stað 21 % aukningar.

Úrgangur frá mannvirkjagerð samanstendur mestmegnis af jarðefnum frá uppgreftri, jarðvegi, möl og sandi en einnig timbri, steypu, gleri o.fl. Mikill hluti þessa úrgangs telst henta vel til notkunar sem fyllingarefni (e. backfilling, oft áður nefnt landmótun). Ráðstöfun af slíku tagi telst til endurnýtingar sem útskýrir hátt endurnýtingarhlutfall innan mannvirkjageirans eða yfir 99%.

Jákvæðar fréttir

Þegar rýnt er nánar í úrgangstölur fyrir árið 2022, leynast ýmsar jákvæðar fréttir sem ekki eru augljósar þegar eingöngu er horft á heildartölur. Dæmi um það er hátt hlutfall endurvinnslu á textíl og hækkun endurvinnsluhlutafalls veiðarfæraúrgangs.

Árið 2022 var fyrsta árið þar sem gögn fyrir magn textílúrgangs eru talin með í úrgangstölfræðina, en hann fellur undir heimilisúrgang. Alls fór 89% af sérstaklega söfnuðum textílúrgangi í endurvinnslu og 11% í förgun.

Endurvinnsluhlutfall veiðarfæraúrgangs, sem fellur undir rekstrarúrgang, tók stórt stökk úr 49% árið 2021 í 73% árið 2022. Á sama tíma hefur urðunarhlutfall veiðarfæra lækkað úr 51% niður í 24% á milli ára. Þessa jákvæðu þróun má að einhverju leyti rekja til betri skráningar á úrgangsstraumnum, en bætingin liggur þó aðallega í fjölgun móttökustöðva veiðarfæraúrgangs sem skilað hefur góðum árangri.

Frekari upplýsingar um magn og meðhöndlun úrgangs má finna á mælaborði urgangur.is

 

Tengt efni: