Stök frétt

Tíðabikar er vinsæll fjölnota valkostur

Vissir þú að manneskja sem fer á blæðingar notar um 7.000 - 11.000 einnota tíðavörur yfir lífsleiðina? Þessar vörur geta haft skaðleg áhrif á líkamann og umhverfið. 

Það er liðin tíð að tíðatappar og bindi séu það eina sem er til. Nú getur fólk valið á milli margra tíðavara sem eru betri valkostir fyrir umhverfið og heilsuna.  

Er kominn tími til að endurskoða valið á þínum tíðavörum?

Einn tíðadiskur getur komið í staðinn fyrir fjölda af einnota bindum og töppum

Fjölnota tíðavörur

Tíðabikarar og tíðadiskar eru fjölnota valkostir sem safna tíðablóðinu í stað þess að draga það í sig eins og tíðatappar og bindi. Vörurnar eru mismunandi í laginu en virka á sama hátt þannig að þeim er komið fyrir upp í leggöngunum og svo tæmdar og þrifnar inn á milli. Þessar vörur eru oftast úr mjúku sílíkoni og geta enst svo árum skiptir.

Nokkrir kostir:

  • Betri fyrir umhverfið
  • Ódýrari til langs tíma
  • Halda meira tíðablóði en hefðbundnir tíðatappar   

Tíðanærbuxur eru lekaþéttar nærbuxur. Þær draga í sig allan leka og má svo þvo á hefðbundinn hátt og eru því góður fjölnota kostur. 

Einnig má finna fjölnota tíðabindi og tíðatappa sem, ólíkt einnota vörunum, en hægt er að þvo eftir notkun og nota oft. 

Fjölnota tíðanærbuxur og bindi eru nú fáanleg 

Vottaðar tíðavörur

Ef einnota tíðavörur verða fyrir valinu eru umhverfisvottaðar vörur góður kostur.

Norræni Svanurinn hefur vottað tíðavörur í rúm 20 ár. Kröfur Svansins snúa að bæði umhverfi og heilsu en þessir tvær þættir haldast oft í hendur. 

Svanurinn er með strangar efnakröfur fyrir tíðavörur. Þegar áhrif efna á umhverfi eða heilsu eru óljós beitir Svanurinn almennt varúðarreglunni og bannar frekar fleiri efni en færri til þess að tryggja öryggi fólks og umhverfisins.

Svanurinn er lífsferilsmerki, þ.e.a.s. hann skoðar allan lífsferil vöru eins og hráefni, framleiðslu, notkun og úrgang. Svanurinn setur strangar kröfur sem eru hertar reglulega og vottunin fer alltaf fram af óháðum 3ja aðila. 

 

Tengt efni:

 

Myndir: Canva