Stök frétt

Umhverfisstofnun leggur fram tillögur um stytt veiðitímabil helsingja og sölubann

Austur-Grænlands-stofn helsingja, sem íslenski stofninn tilheyrir, hefur rýrnað mjög á allra síðustu árum. Bæði varð stofninn fyrir verulegum afföllum vegna bráðrar fuglaflensu en einnig hefur viðkomubrestur verið viðvarandi síðustu tvö sumur. 

Stofninn var metinn um 57.000 fuglar í mars 2024 og er því kominn nærri neðri viðmiðunarmörkum AEWA samningsins sem miðast við 54.000 fugla að vori. Taldar eru 24% líkur á að stofninn hafi nú þegar farið undir fyrrgreind mörk.

Í júní á þessu ári sendi vinnuhópur EGMP (e. European Goose Management Platform), undir AEWA, skilaboð um að þær aðildaþjóðir sem bera ábyrgð á helsingjastofninum á varptíma, farleiðum og vetrarstöðvum (Ísland og Bretland) komist að samkomulagi um hvernig megi takmarka veiðar.

Tillögur að nýju veiðitímabili

Til að ná þessum markmiðum hefur Umhverfisstofnun sent ráðherra tillögur um stytt veiðitímabil helsingja ásamt sölubanni.

Veiðitímabilið yrði því:

  • Landið allt: 1. – 25. september
  • V- og A- Skaftafellsýslur: 10. – 25. september

Lesa *tillögurnar í heild sinni og rökstuðning fyrir þeim.

Einnig er hægt að skoða kynningu á stofnmati helsingja fyrir árið 2024 sem Dr. Fred A. Johnson kynnti á aðildarfundi EGMP í Noregi í júní.

Þar kemur meðal annars fram:

  • Samdráttur í stofni undanfarin 10 ár
  • Ungahlutfall í stofni dregst saman
  • Náttúruleg dánartíðni hefur aukist
  • Veiðiálag hefur aukist
  • 24% líkur að við séum komin undir stofnstærðarmörk (FRP)
  • 40% líkur að við förum undir FRP ef við drögum ekki úr veiðum
 

*Í samantektinni kemur fram að enginn fulltrúi frá SKOTVÍS hafi mætt á fund Umhverfisstofnunar með hagsmunaaðilum. SKOTVÍS vill árétta að ekki tókst að manna fundinn vegna stutts fyrirvara.