Stök frétt

Reykjanes og Vatnajökull eru á nýjum lista Alþjóðajarðfræðisambandsins (e. International Union of Geological Sciences - IUGS) yfir hundrað merka jarðminjastaði á jörðinni. 

Náttúrufræðistofnun Íslands tilnefndi eldstöðina Reykjanes á jarðminjalista IUGS vegna tengingu hennar við Mið-Atlantshafshrygginn. „Þar má sjá gliðnun jarðlaga, misgengi og gossprungur. Auk þess er gossaga, berggerð og jarðhitasvæði Reykjaness mjög áhugaverð“ segir í tilkynningu Náttúrufræðistofnunar.

Reykjanes er á náttúruminjaskrá og innan Reykjaness jarðvangs. Á Reykjanesi er einnig Reykjanesfólkvangur, sem er friðlýst náttúruverndarsvæði í umsjón Umhverfisstofnunar.

Um jarðminjalistann

Til að komast á jarðminjalista IUGS þurfa jarðminjastaðir að hafa mikið alþjóðlegt vísindagildi. Jarðminjastaðirnir eru heimsins bestu dæmi um ákveðin myndunar- og mótunarferli, þar sem gerðar hafa verið merkar jarðfræðilegar uppgötvanir eða þar sem rannsóknir hafa stuðlað að þróun jarðfræði sem vísindagreinar.

Markmið með útgáfu listans er meðal annars að vekja athygli á mikilvægi jarðminja og stuðla að varðveislu þeirra.

Þetta er í annað sinn sem jarðminjalistinn er gefinn út. 

Vatnajökull einnig á listanum

Alþjóðlegt samband landmótunarfræðinga tilnefndi Vatnajökul sem alþjóðlega mikilvægan jarðminjastað vegna samspils jökuls og eldvirkni. 
Jökulhlaup og sandar eru fágæt fyrirbæri í heiminum og við Vatnajökul finnast á meðal bestu dæma um þau. Í Vatnajökli eru auk þess virkar megineldstöðvar, mismunandi gerðir jökla og margbreytileg landform mynduð af jökli. Vatnajökull er þjóðgarður og á heimsminjaskrá UNESCO.

Sjá nánar í tilkynningu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands