Stök frétt

Við undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu - Frá vinstri: Stefán Guðmundsson, Eydís L. Finnbogadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigrún Ágústsdóttir.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, undirritaði og staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu þann 11. september. Áætlunin var einnig undirrituð af Sigrúnu Ágústsdóttir, forstjóra Umhverfisstofnunar, og Eydísi Líndal Finnbogadóttur, forstjóra Náttúrufræðistofnunar. 

Áætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar fyrir dýrastofn á Íslandi. Hún er mikilvægur liður í því að stuðla að sjálfbærum veiðum og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. 

Tímamót í veiðistjórnun

Með áætluninni verða tímamót í veiðistjórnun rjúpu. Héðan í frá verður veiðistjórnun á rjúpu svæðisbundin, þar sem landinu er skipt niður í sex svæði.  

Fastir þættir sem ekki breytast á milli ára hafa verið staðfestir, svo sem að veiðitímabil hefjist fyrsta föstudag á eða eftir 20. október, veiðidagar séu heilir og veiði sé leyfileg föstudaga til þriðjudaga innan veiðitímabils.  

Ný stofnlíkön hafa verið þróuð sem verða notuð til að reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils sem getur verið mismunandi á milli svæða. 

Samstarf hagsmunaaðila 

Þessir föstu þættir stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu sem eykur traust á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.  

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn fékk einnig aðstoð frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð. 

Meira um stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu