Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Lög leiðsögumanna

I. HLUTI

Nafn
Hlutverk
Félagsaðild

        1. gr.    
Nafn félagsins er “Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum” og skal
skammstöfun þess vera FLH. Aðsetur þess og varnarðing er á Austurlandi.

        2. gr.
Hlutverk félagsins skal vera, að stuðla að eftirfarandi:

Að leiðsögn með hreindýraveiðum verði faglegt og sérhæft starf.

Að hreindýraveiðar á Íslandi verði stundaðar af fagmennsku og virðingu fyrir
bráðinni og umhverfinu.

Að þjónusta leiðsögumanna við hreindýraveiðar verði eftirsótt og arðsöm
atvinnugrein.

Að vera málsvari félagsmanna útávið og gagnvart stjórnvöldum.

Að aðstoða stjórnvöld við mótun og stefnumörkun í þeim málum sem varða
hreindýraveiðar.

        3. gr. 
Félagið setur félagsmönnum skyldur samkvæmt landslögum og reglum um
hreindýraveiðar eins og þær eru á hverjum tíma.

        4. gr. 
Leiðsögumenn með hreindýraveiðum skulu starfa eftir lögum og siðareglum
félagsins eins og þau eru hverju sinni, þar sem virðing fyrir náttúru og
bráð er í fyrirrúmi.

        5. gr.
Félagar geta þeir einir orðið sem réttindi og starfsleyfi hafa, sem
leiðsögumenn með hreindýraveiðum. þau eru veitt af Umhverfisstofnun að
undangengnu námskeiði og að uppfylltum skilyrðum eins og þau eru á hverjum
tíma.

        6. gr.
Félagsmenn skulu greiða árgjald til félagsins og skal sú upphæð ákveðin á
aðalfundi.

Gjalddagi árgjalds er 1. janúar og greiðist þá árgjald fyrir það ár. Eindagi
er 1. febrúar.

Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald sitt fyrir aðalfund, missir hann
atkvæðisrétt og kjörgengi á þeim fundi ásamt öðrum félagsréttindum.

Skuldi félagsmaður árgjald, skal stjórnin tilkynna honum, er þrír mánuðir er
liðnir frá gjalddaga síðasta árgjalds, að hann falli af félagaskrá, standi
hann ekki skil á gjöldum sínum innan eins mánaðar.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og miðast við áramót.

        7. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að víkja mönnum úr félaginu eftir ítrekuð brot á
lögum og siðareglum sem greind eru í 3. og 4. gr. Áður skal þess gætt að
virtur sé andmælaréttur viðkomandi.

Brottrekinn félagsmaður getur áfrýjað slíkri ákvörðun til aðalfundar.

II. HLUTI

Aðalfundur
Félagsfundir

        8. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert.

Aðalfund skal boða með a.m.k. 10 daga fyrirvara, bréflega, með tölvupósti
eða með auglýsingu í a.m.k. einu dagblaði.
(Samkvæmt tillögu sem samþykkt var samhljóða á aðalfundi FLH 2010 var fyrirvara á fundarboði aðalfundar breytt úr a.m.k. 4 vikum í a.m.k 10 daga.)

Á aðalfundi ræður afl atkvæða.

        9. gr.
Á aðalfundi skal stjórn félagsins gefa skýrslu um starfsemi félagsins á
liðnu starfsári og skulu reikningar félagsins hafa legið frammi, áritaðir af
skoðunarmönnum og aðgengilegir félagsmönnum til athugunar á þeim stað sem
stjórnin ákveður í tvær vikur fyrir aðalfund.

Bókhald og reikningar félagsins skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda
áður en stjórn leggur þá fyrir skoðunarmenn sem kjörnir eru á aðalfundi.

        10. gr.
Þessi eru störf aðalfundar:
1. Setning fundar.
2. Kosning fundarstjóra.
3. Kosning fundarritara.
4. Skýrsla stjórnar.
5. Starfsnefndir gera grein fyrir störfum sínum.
6. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
7. Lagabreytingar.
8. Kosning stjórnar sbr. 12. gr.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara.
10. Ákvörðun árgjalds.
11. Önnur mál.
12. Fundargerð lesin og borin undir atkvæði.
13. Fundarslit.

        11.gr.
Til almennra félagsfunda skal boðað þegar sérstök þörf þykir að dómi
meirihluta stjórnar eða helmingur félagsmanna óska þess skriflega og
tilgreina fundarefni.

Stjórn skal halda félagsfund ekki síðar en 15. dögum frá því að henni barst
um það beiðni skv. 2. mgr. 12. gr.

Almennan félagsfund skal boða með a.m.k. viku fyrirvara.

Fundir teljast löglegir ef til þeirra er boðað með löglegum hætti.

III. HLUTI

Stjórn
Starfsnefndir

        12. gr.
Stjórn félagsins skipa fimm menn sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára
í senn; formaður og varaformaður kosnir sérstaklega til þeirra embætta. Auk
þeirra ðrír meðstjórnendur.

Í varastjórn skal kjósa tvo menn.

Stjórn skiptir með sér verkum að öðru leyti en fram kemur í 1. málsgrein 12.
greinar.

Verksvið stjórnarmanna skulu m.a. vera eftirfarandi:

Formaður: Er ábyrgur fyrir daglegum rekstri félagsins.

Staðgengill hans er varaformaður. Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir
þeim. Hann einn fer með prókúru félagsins.

Gjaldkeri : Er ábyrgur fyrir að regla sé á bókhaldi félagsins.

Staðgengill hans er annar meðstjórnenda samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Ritari : Er ábyrgur fyrir að efni funda sem haldnir eru á vegum
félagsins sé skilmerkilega skráð í fundargerðaform, þannig að til verði
heimild um sögu og ákvarðanir félagsins.

Staðgengill hans er annar meðstjórnenda samkvæmt ákvörðun
stjórnar.

Hver maður í stjórn og varastjórn skal kosinn til tveggja ára. Formaður,
ritari og meðstjórnandi auk annars varamanns annað árið, en gjaldkeri,
varaformaður og einn varamaður hitt árið.

Stjórnin hefur á hendi allan rekstur félagsins á milli aðalfunda.

Á stjórnarfundi gildir vægi atkvæða. Falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði
formanns.

Til þess að stjórnarfundur sé löglegur, þarf meirihluti stjórnar að vera á
fundi.

        13. gr. 
Ekki síðar en fjórum vikum eftir aðalfund skal stjórn hafa sent út til
félagsmanna fundargerð aðalfundar auk áætlunar um starfsemi félagsins fyrir
komandi starfsár og hafa lokið skipan mála í nefndir og til annarra þeirra
verkefna sem henni eru falin á aðalfundi. Í áætlun skal koma fram stefna og
markmið stjórnar ásamt rekstraráætlun til næsta aðalfundar.

        14. gr. 
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

        15. gr. 
Innan félagsins skulu vera eftirtaldar starfsnefndir sem stjórn skipar til
eins árs og skulu í hverri sitja þrír menn. Verkefni þeirra eru eftirtalin :

a) Siðanefnd; semji og endurskoði siðareglur félagsins og fjalli ásamt
stjórn, um brot á þeim.

b) Fræðslunefnd; semji og taki þátt í mótun námsefnis og leiðbeininga
fyrir núverandi og væntanlega félagsmenn. Sjái um og skipuleggi
námskeiðahald á vegum félagsins.

c) Laganefnd; starfi að endurskoðun laga félagsins og samningu reglna þess
í takt við landslög og reglugerðir á hverjum tíma, hafi nána samvinnu við
fræðslunefnd vegna útgáfu og upplýsingaveitu til félagsmanna um
reglugerðabreytingar.

Auk þess getur stjórn sett á laggir starfsnefndir ár hvert og falið þeim
sérverkefni eftir eðli mála.

Nefndir skulu starfa milli aðalfunda.

Nefndir bera ábyrgð gagnvart stjórn og skulu gera grein fyrir störfum sínum
á aðalfundi.

        16. gr. 
Stjórn félagsins er heimilt að veita viðurkenningar fyrir störf í þágu
félagsins.

Um viðurkenningar og heiðursfélaga skal setja reglur sem samþykkja skal á
aðalfundi.

IV. HLUTI

Lagabreytingar

        17.gr.
Tillögur til lagabreytinga skal afhenda stjórn félagsins með skriflegum
hætti fyrir 1. desember. þær tillögur skulu kynntar í aðalfundarboði.

Lögum félagsins verður aðeins breytt með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á
aðalfundi.

V. HLUTI

 

Ýmislegt

        18. gr.
Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins, þótt hann hverfi
úr félaginu eða félaginu verði slitið.

Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en
árgjaldi sínu.

        19.gr. 
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og þá með samþykki 2/3
félagsmanna.

Fundur sá sem samþykkir félagsslit með lögmætum hætti, kveður á um hvernig
ráðstafa skuli eignum félagsins og skuldum.

        20.gr.
Lög þessi öðlast gildi við samþykkt þeirra á stofnfundi félagsins á
Egilsstöðum 14. febrúar 2003 .

Ákvæði til bráðabirgða sem falla niður að loknu fyrsta starfsári :

1. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 12. gr. skal á stofnfundi kjósa varaformann,
meðstjórnanda og varamann til eins árs.

2. Á fyrsta aðalfundi eftir stofnfund skal stjórn leggja fram drög að
siðareglum félagsins og skal siðanefnd hafa það hlutverk á fyrsta starfsári
að semja þau.