Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Efni í hlutum

Til að tryggja örugga notkun efna og efnablandna skulu upplýsingar um hættu og varúð koma fram á umbúðum þeirra. Ef nota á efni og efnablöndur í atvinnuskyni skal söluaðili auk þess afhenda notandanum öryggisblöð með nánari upplýsingum. Ekki gilda sömu reglur varðandi upplýsingagjöf um efni sem eru í hlutum, þannig er til dæmis ekki skylt að tilgreina innihaldsefni á umbúðum þeirra. Þegar við tölum um hluti í þessu samhengi er átt við gripi sem fá í framleiðsluferlinu sérstaka lögun, áferð eða útlit sem ræður meiru um hlutverk þeirra en efnafræðileg samsetning. Dæmi um hluti sem innihalda efni eru fatnaður, leikföng, byggingarefni og raftæki.

Efnum er oft bætt í hluti til að ná fram ákveðnum eiginleikum. Sem dæmi má nefna mýkingarefni í plasti, eldtefjandi efni í vefnaðarvörum og efni til að auka vatnsheldni og hrinda frá óhreinindum sem bætt er í útivistarklæðnað.Ef slíkt innihaldsefni hefur heilsu- og umhverfisskaðlega eiginleika og losnar frá hlutnum, þá getur það haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfið. Hér að neðan eru tekin nokkur dæmi um efni sem gjarnan er bætt í hluti til að hafa áhrif á eiginleika þeirra. 

 Því miður er þekking á því hvernig efni úr hlutum losna og dreifast takmörkuð og við vitum heldur ekki nógu mikið um það hvernig efnin hafa áhrif á heilsu manna og umhverfið. Efnagreiningar eru afar kostnaðarsamar og ekki er nóg að mæla sjálft efnainnihaldið í hlutnum, heldur þarf líka að vita umfang losunar úr honum til að hægt sé að meta þau áhrif sem efnin hafa. Umhverfisstofnun Danmerkur hefur undanfarin ár unnið metnaðarfullt starf við efnagreiningar á ýmsum hlutum og allar niðurstöður eru aðgengilegar á heimasíðu hennar, www.mst.dk, þar sem hægt er að leita bæði eftir mismunandi hlutum eða heiti efnis. 


Kandídatalistinn

Ýmis sérlega hættuleg efni hafa verið sett á svokallaðan kandídatalista Efnastofnunar Evrópu og hefur neytandinn rétt til að krefjast upplýsinga um það hvort hlutur innihaldi efni á þessum lista. Auk þess er hægt að biðja framleiðandann um upplýsingar um efni sem ekki finnast á kandídatalistanum. Ýmsir skaðlegir eiginleikar valda því að efnin á kandídatalistanum teljast sérlega hættuleg. Þau geta til dæmis verið krabbameinsvaldandi, skaðað fóstur, dregið úr frjósemi eða verið skaðleg umhverfinu. Efnin kallast jafnan SVHC sem stendur fyrir Substances of Very High Concern og sem dæmi um slík efni má nefna þalötin DEHP, BBP og DBP, oktametýlsýklótetrasíloxan (D4) og fjölhringa arómatíska vetniskolefnið fenanþren.

Hvað getur neytandinn gert? 

Ef grunur vaknar um að hlutur innihaldi óæskileg efni getur neytandinn spurt að því í versluninni þar sem hluturinn var keyptur hvort um sé að ræða efni sem finnast á kandídatalistanum. Ef hluturinn inniheldur slíkt efni í meiri styrk en sem nemur 0,1% af massa hlutarins hefur neytandinn rétt á að fá að vita það og skal verslunin afhenda upplýsingar sem nægja til að nota megi hlutinn á öruggan hátt, að lágmarki heiti efnisins. Viðkomandi upplýsingar skulu afhentar, án þess að gjald komi fyrir, innan 45 daga frá því að tekið var við beiðni um upplýsingar. Söluaðilinn hefur rétt til að fá viðkomandi upplýsingar frá framleiðanda eða innflytjanda vörunnar.

Hvað getur fyrirtækið gert? 

Fyrirtæki sem markaðssetur hlut sem inniheldur efni ber ábyrgð á því að hluturinn skaði ekki heilsu manna og umhverfi. Það er mikilvægt að fyrirtæki séu upplýst um efnainnihald í þeim vörum sem þau markaðssetja og krefjist upplýsinga um það hjá sínum birgjum. Góð tengsl við birgja eru þannig afar mikilvæg, því fyrirtækin þurfa að sækja sér upplýsingar, viðhalda varúð og skipta út hlutum sem innihalda hættuleg efni til að lágmarka áhættuna. Fyrirtæki þurfa að vera viðbúin því að geta svarað hinum almenna neytanda, ef hann spyr hvort ákveðinn hlutur innihaldi efni á kandídatalistanum.