Leyfisveiting

Leyfisskyld efni skv. REACH eru þau efni sem skráð eru í XIV. viðauka við reglugerðina. Fyrirtækjum er ekki heimilt að framleiða eða nota leyfisskyld efni eftir svokallaðan lokadag (e. sunset date) nema að hafa fengið til þess sérstakt markaðsleyfi sem veitt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þau fyrirtæki sem komast ekki hjá notkun efnanna eftir lokadag verða að sækja um slíkt leyfi til Efnastofnunar Evrópu fyrir tiltekna dagsetningu sem fylgir skráningu efnisins í XIV. viðauka.

Þegar framkvæmdastjórn ESB hefur tekið ákvörðun um veitingu eða synjun markaðsleyfis staðfestir Umhverfisstofnun ákvörðunina fyrir hönd Íslands með því að birta upplýsingar um hana á vef stofnunarinnar.

Leyfisskyldingu í REACH er ætlað að tryggja að nægt eftirlit sé með þeirri áhættu sem fylgir því að nota efni sem eru mjög skaðleg heilsu eða umhverfi. Eitt af meginmarkmiðunum er að slíkum efnum sé skipt út þegar önnur efni eða tækni getur komið í staðinn fyrir notkun þeirra.

Hvaða efni eru sett í forgang?

Forgangsefni til skráningar í XIV. viðauka við REACH eru efni af kandídatalistanum sem eru mjög skaðleg umhverfinu, eru í víðtækri notkun og framleidd í miklu magni. Um það bil einu sinni á ári eru tillögur um skráningu nýrra efna í XIV. viðauka lagðar fram til samráðs með 90 daga skilafrest fyrir athugasemdir. ECHA sendir svo tillögur um hvaða efni ætti að skrá til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem í samráði við aðildarríkin tekur ákvörðun um framhaldið; hvort efnin skuli skráð í XIV. viðauka, með hversu löngu aðlögunartímabili og hvort einhverjar undanþágur skuli veittar frá leyfisskyldingu.

Hverjir þurfa markaðsleyfi?

Krafan um markaðsleyfi gildir um efni eitt sér, í efnablöndu og til notkunar í hluti. Krafan leggst á þá sem setja efnið á markað (þ.m.t. þá sem flytja efnið inn í ESB/EES frá löndum utan svæðisins) eða nota það, óháð magni efnisins og notkunarsviði.

Fyrirtæki sem fá leyfisskylt efni afhent frá birgi sem hefur fengið markaðsleyfi fyrir viðkomandi efni þurfa ekki að sækja um leyfi sjálf að því gefnu að notkunarsvið/notkunarskilyrði fyrirtækisins falli undir markaðsleyfi birgisins.

Öllum fyrirtækjum er skylt að tilkynna ECHA um notkun efna sem veitt hefur verið markaðsleyfi fyrir innan þriggja mánaða frá veitingu leyfisins.