Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Almennt um skráningu

Efnisyfirlit

Skráningarskylda

Áður en fyrirtækjum er heimilt að setja efni á markað þurfa þau að skrá efnin hjá Efnastofnun Evrópu (ECHA). Í skráningu felst að skjalfesta eiginleika efnanna og sýna hvernig hægt er að meðhöndla þau á öruggan hátt fyrir heilsu og umhverfi.

Skráningarskyldan nær til allra sem framleiða eða flytja inn (til ESB/EES) efni, eitt sér eða í blöndu, í magni sem nemur 1 tonni á ári eða meira. Í sumum tilvikum gildir skyldan einnig um efni í hlutum (e. articles), þ.e. ef efnunum er ætlað að losna úr hlutnum.

Ef þú ætlar að flytja inn eða framleiða efni eða efnablöndu verður þú að kanna hvort þér ber skylda til að skrá efnið í samræmi við ákvæði REACH reglugerðarinnar. Skráningarskyldan veltur á því hvaðan þú færð efnin og í hvaða magni. Þú getur notað vegvísi fyrir skráningarskyldu skv. REACH til að átta þig á þinni stöðu gagnvart skráningarskyldunni.

Undantekningar frá skráningarskyldu

Sumar gerðir efna og sum notkun eru undanþegnar skráningarskyldu. Að sama skapi eru til undantekningar sem tengjast uppruna efnisins. Dæmi um efni sem undanþegin eru skráningarskyldu eru efni sem talin eru upp IV. og V. viðauka við REACH, efni sem falla innan gildissviðs annarra sértækari reglugerða og efni sem eru notuð við vöru- og ferlamiðaðar rannsóknir og þróun (e. product and process orientated research and development, PPORD).

Kostnaður við skráningu

Kostnaður við skráningu er tvíþættur:

  • Greiða þarf skráningargjald til ECHA en upphæð þess er háð magni efnisins sem er framleitt/flutt inn og stærð fyrirtækisins sem er að skrá. Fyrirtæki sem falla að skilgreiningu Evrópusambandsins yfir lítil og meðalstór fyrirtæki (e. small and medium sized enterprises, SMEs) greiða lægri skráningargjöld en stærri fyrirtæki. Upphæðir gjaldanna eru settar fram í reglugerð (EB) nr. 340/2008 með síðari breytingum (nýjustu útgáfu reglugerðarinnar er hægt að nálgast á vef EUR-Lex).
  • Afla þarf ýmissra gagna um efnið sem á að skrá og því fylgir óhjákvæmilega kostnaður. Eftir því sem framleiðsla/innflutningur er í meira magni eru gerðar kröfur um ítarlegri gögn. Í þeim tilfellum sem efnið sem á að skrá hefur þegar verið skráð af öðrum þurfa nýjir skráningaraðilar að kaupa aðgang að þeim gögnum sem þegar liggja fyrir (sjá nánar á síðunni Skráningarferlið).

Efni sem hafa ekki verið skráð áður

Fyrir efni sem hafa ekki enn verið skráð af öðrum aðilum er skráningarferlið mjög umfangsmikið. Fyrirtæki sem hyggjast skrá efni fyrst allra verða sjálf að leggja fram öll nauðsynleg gögn fyrir skráningu efnanna. Þetta ferli er umfangsmeira en svo að það verði útlistað hér. Kröfur um nauðsynleg gögn koma fram í VII. til X. viðauka við REACH og um upplýsingar varðandi slíka skráningu vísast til leiðbeiningarefnis á vef ECHA.

Efni sem hafa verið skráð áður

Þegar fyrirtæki hyggst skrá efni sem hefur þegar verið skráð af öðrum þarf það að kaupa aðgang að þeim skráningargögnum sem þegar liggja fyrir í sameiginlegri skráningu (e. joint submission). Þar sem þetta er nú orðið algengasta form skráningar snúa allar frekari leiðbeiningar á síðunni að skráningum af þessari gerð.