Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Köngulær eru nytjadýr

Alltaf er nokkuð um það á sumrin að köngulær geri sig heimakomnar utan á húsum landsmanna, sumum til nokkurs ama. Einkum mun það vera krosskönguló sem á þetta til og þá er stundum gripið til þess ráðs að úða allt húsið að utan með skordýraeyði til þess að ráða niðurlögum hennar.

Köngulær stinga ekki né bíta

Hér er rétt að staldra við og íhuga aðeins hvaða skaða köngulærnar valda okkur í raun. Þær láta okkur mannfólkið til dæmis alveg í friði, eru ófleygar og stinga hvorki né bíta. Hins vegar veiða köngulær í vef sinn ýmis fleyg skordýr sem okkur kunna að þykja hvimleið, þær geta jafnvel veitt geitunga og komið þeim fyrir kattarnef.

Skordýraeyðir mikið inngrip

Í umhverfi okkar er urmull skordýra og annarra smádýra og á milli þeirra er flókið samspil. Sum þeirra eru fæða fyrir stærri dýr, önnur eru rándýr eða sníkjudýr sem lifa á hinum smádýrunum og enn önnur geta valdið skaða á gróðri. Við úðun með skordýraeyði drepast öll þessi smádýr hvort sem þau eru til ama eður ei og því erum við með þessum aðgerðum að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar og jafnvel að skapa meiri vanda heldur en við leysum.

Með sópinn að vopni

Best af öllu er að forðast algerlega eiturefnanotkun og beita aðeins þeim aðferðum sem ekki hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Það má til dæmis losna við köngulóavefi með því að sópa þeim burt eða sprauta á þá vatni. Aldrei ætti að úða að utan heilu húsin algerlega óháð því hvar vandinn er til staðar heldur einbeita sér að þeim stöðum þar sem dýrin eru til ama. Á þann hátt höldum við neikvæðum áhrifum á lífríkið í lágmarki og náum um leið að leysa þann vanda sem við er að etja.

Látum fagmenn um verkið

Einungis fagmenn, sem hafa starfsleyfi til eyðingar meindýra og eru handhafar notendaleyfis fyrir útrýmingarefnum, mega taka að sér í atvinnuskyni að eyða köngulóm og skordýrum í híbýlum manna og á öðrum þeim stöðum þar sem þessi dýr eru til ama. Þessir aðila hafa þekkingu og reynslu á sviði meindýravarna og aðgang að réttu efnunum til þess að ná árangri.