Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Alkýlfenól

Alkýlfenól (e. alkylphenols, APs) og etoxýlöt þeirra (e. alkylphenol ethoxylates, APEOs) er stór hópur efna. Alkýlfenóletoxýlöt hafa verið vinsæl yfirborðsvirk efni en þau bæta meðal annars úðunareiginleika í þvottaefnum og leysa upp fitu.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Textíl og leðri
  • Snyrtivörum
  • Hreinsiefnum
  • Þvottaefnum
  • Sótthreinsiefnum
  • Vörum úr plasti
  • Bíladekkjum
  • Málningu og lökkum
  • Límum
  • Ryki

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Í gegnum meltingarveginn
  • Með upptöku í gegnum húð
  • Með innöndun 
  • Í gegnum fylgjuna til fósturs

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Dregið úr frjósemi
  • Truflað innkirtlastarfsemi líkamans
  • Líkt eftir hormóninu estrógen
  • Hormónatengd krabbameinsáhætta (e. hormone related cancer risk)
  • Erting eða bruni í húð og augum
  • Skaðað lifrina við mikla og tíða útsetningu

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja textíl sem er merktur með Oeko-Tex 1000.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um alkýlfenóla

Alkýlfenól (e. alkylphenols, APs) og etoxýlöt þeirra (e. alkylphenol ethoxylates, APEOs) er stór hópur efna en alkýlfenól eru yfirleitt notuð við framleiðsluferli, þá sem hráefni eða milliefni fyrir fjölliðuframleiðslu, og alkýlfenóletoxýlöt hafa verið vinsæl yfirborðsvirk efni en þau bæta meðal annars úðunareiginleika í þvottaefnum og leysa upp fitu. Þegar alkýlfenóletoxýlöt losna út í umhverfið, einkum í gegnum skólphreinsistöðvar, þá brotna þau niður með því að missa etoxýhópa og umbreytast í akýlfenól. Niðurbrotsefnin eru mun skaðlegri en forverar þeirra, en þau eru þannig meðal efna sem auka eiturhrif sín með tímanum/niðurbrotinu. Algengt er að nefna alkýlfenól eftir keðjulengd efnisins en iðnaðurinn notast mest við keðjulengdir frá 1 (metýl) upp í 12 kolefnisatóm (dódekýl). Þekktustu og skaðlegustu alkýlfenólin er nónýlfenól (9 kolefni í keðjunni) og etoxýlöt þeirra.

Staðfest hefur verið að nokkur alkýlfenól og etoxýlöt þeirra hafa innkirtlatruflandi eiginleika og eru sérlega eitruð vatnalífverum, t.a.m. 4-nónýlfenól og etoxýlöt, 4-tert-oktýlfenól og etoxýlöt, 4-heptýlfenól, 4-tert-pentýlfenól og 4-tert-bútýlfenól. Að auki brotna nónýl-, oktýl- og dódekýlfenól torlega niður í umhverfinu, eru vatnsfælin og geta safnast upp í lífverum.

Strangar reglur eru í gildi innan EES varðandi leyfilegan hámarksstyrk á nokkur efnanna, hér eru nokkur dæmi:

Vinna er enn í gagni við að meta og koma fleiri takmörkunum á efnahópinn en það er tímafrekt verk.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um alkýlfenól á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Skýrsla um alkýlfenól og alkýlfenóletoxýlöt á ensku sem er gefin út af Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) árið 2013.

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 2. apríl 2024.