Heildarmagn og meðhöndlun

Árið 2021 var heildarmagn úrgangs sem féll til á Íslandi um 1.305 þúsund tonn.  Ef rýnt er í hvernig magnið skiptist niður á mismunandi uppruna úrgangs kemur í ljós að heimilisúrgangur nam um 246 þúsund tonnum, úrgangur frá iðnaði og öðrum rekstri reyndist vera rúm 310 þúsund tonn og úrgangur sem rekja má til mannvirkjagerðar var rúm 749 þúsund tonn.  Af síðastnefnda úrganginum var langstærsti hlutinn jarðefni frá uppgreftri, s.s. hreinn jarðvegur, möl og sandur.

Af þeim rúmlega 1.305 þúsund tonnum af úrgangi sem féllu til á landinu fóru 86% til endurnýtingar og 14% til förgunar (sjá mynd).  Ef ráðstöfun úrgangs fyrir árið 2021 er skoðuð með tilliti til uppruna úrgangsins má sjá að endurnýtingarhlutfall heimilisúrgangs var 58%, endurnýting úrgangs frá iðnaði og öðrum rekstri var 76% og 99% fyrir úrgang frá mannvirkjagerð. Til útskýringar á háu endurnýtingarhlutfalli í síðastnefnda flokknum þá er langstærsti hluti hans óvirkur úrgangur, s.s. jarðefni eins og áður segir, steypa, flísar, keramík og gler.  Þessi úrgangur hentar ágætlega til endurnýtingar með því að nota hann sem uppfyllingarefni eða með öðrum hætti til landmótunar.


Eins og gefur að skilja er margt sem getur orsakað sveiflur í heildarúrgangsmagni þjóðar, s.s. breytingar á samsetningu atvinnulífs í landinu, innleiðing nýrrar tækni í iðnaði, aukning eða samdráttur í mannvirkjagerð og jafnvel sveiflur á erlendum mörkuðum geta haft áhrif á magnið hér á landi.  Jafnframt er samanburður á milli landa örðugur þar sem atvinnulíf þjóða getur verið misjafnlega samansett.  Í einu landi er sjósókn og fiskvinnsla stærsta atvinnugreinin, í öðru námagröftur og í því þriðja ferðaþjónusta.  

Mismunandi atvinnugreinum fylgir mismikill úrgangur og mismunandi samsetning úrgangs. Gjarnan er því horft til heimilisúrgangs þegar ætlunin er að skoða þróun úrgangsmagns á milli ára og bera saman magn úrgangs á milli landa. Árið 2021 var magn heimilisúrgangs á hvern íbúa á Íslandi 667 kg og var um 9% aukning frá fyrra ári. Ef horft er til aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) þá var meðaltal heimilisúrgangs árið 2021 innan ESB 530 kg/íbúa. Innan landa ESB og EES var Ísland í 7. sæti yfir magn heimilisúrgangs á íbúa árið 2021, en meira magn féll til í Austurríki, Danmörku, Lúxemborg, Belgíu, Noregi og Sviss.

Árið 2019 var magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi með því hæsta sem gerist. Þá var meðaltal innan ESB 502 kg/íbúa miðað við 700 kg/íbúa á Íslandi. Innan landa ESB og EES var Ísland þar með í 5.sæti yfir magn heimilisúrgangs á íbúa árið 2019, en meira magn féll til í Danmörku, Lúxemborg, Möltu og Noregi. Það sem er einna athyglisverðast er að magn heimilisúrgangs dróst saman um 9% innan ESB á tímabilinu 2002–2016 en það er öfugt við þá þróun sem hefur orðið hér á landi. Það gefur því auga leið að þó hér sé um að ræða stefnu um meðhöndlun úrgangs sem hefur það að markmiði að auka endurvinnslu og endurnýtingu og draga úr urðun, er einnig mikið verk fyrir höndum þegar kemur að því að draga úr myndun úrgangs.


Í samræmi við úrgangsþríhyrninginn er nauðsynlegt að ganga lengra en að leggja áherslu á endurvinnslu og minni urðun með því að leggja ennfremur áherslu á að draga úr sóun og myndun úrgangs.  Sú aðgerð sem er skilvirkust þegar kemur að því að draga úr álagi sem úrgangur hefur á umhverfið er að kaupa minna og neyta minna.  Þannig er mikilvægt að leggja áherslu á úrgangsforvarnir og fylgja stefnunni Saman gegn sóun. Hér að neðan má finna tölfræðiskýrslur fyrir heildarmagn úrgangs á Íslandi síðan frá 2014 (athugið að Hagstofan birtir einnig upplýsingar um magn úrgangs á Íslandi):