Ferill friðlýsinga

Friðlýsing er aðferð í náttúruvernd sem notuð er til að vernda sérstæðar og mikilvægar náttúruminjar og nær yfir afmarkað landsvæði. Við friðlýsingu er verið að taka frá svæði sem nýtur þá verndar til frambúðar fyrir náttúruna og komandi kynslóðir. Friðlýsingar byggjast á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og eru unnar í samstarfi við landeigendur, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.

Þegar tillaga að svæði til friðlýsingar berst er hún tekin til skoðunar og mats hjá Umhverfisstofnum og því ráðuneyti sem fer með umhverfismál. Óskað er eftir mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi svæðisins. Einnig er farið yfir eignarhald svæðisins og skipulagsáætlanir viðeigandi sveitarfélags o.fl. eftir því sem við á. Séu forsendur til friðlýsingar fyrir hendi fer undirbúningur friðlýsingar af stað sem hefst með beiðni um tilnefningu í samstarfshóp sem hefur það hlutverk að vinna að undirbúningi friðlýsingarinnar og afmörkun svæðisins.

Allir geta lagt til að svæði verði friðlýst en einnig er unnið eftir stefnumótun Alþingis um náttúruverndaráætlanir (2004-2008 og 2009-2013), náttúruminjaskrá og rammaáætlun.

 

Ferill friðlýsinga

Í fyrsta skrefi undirbúnings friðlýsingar óskar Umhverfisstofnun eftir tilnefningu fulltrúa landeigenda, sveitarfélags og annarra, eftir því sem við á, í samstarfshóp. Hlutverk samstarfshópsins er að vinna hagsmunaaðilagreiningu, tillögu að reglum svæðisins, s.k. friðlýsingaskilmálum og afmörkun þess. 

Ef svæðið sem um ræðir er ekki á náttúruverndaráætlun, rammaáætlun eða framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár þarf að auglýsa áform um friðlýsingu svæðisins í fjórar vikur þar sem þarf að lágmarki að tilgreina markmið og tilgang fyrirhugaðrar friðlýsingar. Áformin eru send sérstaklega til þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta á svæðinu skv. hagsmunaðilagreiningu samstarfshópsins. Að kynningartíma liðnum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um innkomnar athugasemdir og skilar til ráðherra umhverfismála. Einnig skal Umhverfisstofnun gera þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við tillöguna grein fyrir umsögn sinni um þær. Ef svæðið er á ofangreindum áætlunum er ekki þörf á þessu kynningarferli nema fyrirhugað sé að friðlýsa stærra svæði en áætlanirnar kveða á um.

Við vinnu við tillögu að friðlýsingaskilmálum fer fram samráð við þá aðila sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta á svæðinu, s.s. rétthafa lands, ferðaþjónustuaðila o.fl.

Þegar samstarfshópurinn hefur unnið tillögu að friðlýsingaskilmálum og afmörkun svæðisins er tillagan auglýst í að lágmarki sex vikur. Umhverfisstofnun skal leggja drögin fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Jafnframt ber stofnuninni að kynna landeigendum og öðrum rétthöfum lands rétt til bóta skv. 42. gr. náttúruverndarlaga. Að kynningartíma loknum vinnur samstarfshópurinn úr innkomnum athugasemdum. Í kjölfarið vísar Umhverfisstofnun málinu til ráðherra til staðfestingar en einnig þarf stofnunin að gera ráðherra grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.