Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Menning og saga

Saga vitans

Saga og uppbygging vitans á Dyrhólaey er á margan hátt merkileg og var mikil frumkvöðlavinna fyrir vita á Íslandi. Árið 1910 var reistur sænskur járngrindaviti á Dyrhólaey og var það fyrsti járngrindavitinn sem var settur upp. Nokkru seinna eða árið 1927 var vitinn svo reistur sem steypt mannvirki í þeirri mynd sem við sjáum hann nú. Guðjón Samúelsson, húsasmíðameistari ríkisins sá um frumhönnun vitans, Benedikt Jónasson og Thorvald Krabbe komu einnig að hönnun vitans. Vitinn er fyrsti landtökuvitinn og einnig sá ljóssterkasti, hæsti punktur ljóskersins er í 123m hæð yfir sjó og ljós hans sést í 27 mílna (43km) fjarlægð. Radíóviti var einnig staðsettur í vitanum frá 1928 en var fjarlægður eftir seinni heimsstyrjöldina. Radíóvitinn sendi út útvarpsbylgjur sem flugvélar nýttu til að staðsetja sig.

Vitavörður sá um vitann til ársins 2015 en hann er nú í umsjón vegagerðarinnar. Á fyrri árum var vitavörður oft á tíðum búsettur í vitanum og landvarðahúsið var þá nýtt sem lítið fjárhús. Seinna varð landvarðarhúsið að klósethúsi en í dag er það aðstaða landvarða. Árið 1964 var vitinn rafvæddur og einfaldaðist vitavarða vinnan þá mikið. Vitanum er haldið fallegum og í góðu lagi enda er hann enn þá í fullri virkni, hann var lagfærður og málaður að utan í júní 2020.

Hafnargerð

Um tíma voru stórtækar hugmyndir um hafnargerð í Dyrhólaey. Ýmsar blaðagreinar birtust víðs vegar þess efnis á árunum 1960-1980. Þessar hugmyndir fjöruðu út eftir að kostnaður um fyrirhugaða höfn kom í ljós. Eina leiðin til að réttlæta slíkan kostnað við hafnargerð var að reisa álverksmiðju en íbúar Mýrdalshrepps lögðust gegn því. Hins vegar fékkst fjármagn til athafna á svæðinu og árið 1977 var keflum og landfestum komið upp og haft sprengt í bergið við Kirkjufjöru, haftið hefur fengið viðurnefnið Glópagjá. Ummerki eftir þessar stórtæku hugmyndir má sjá á Lágey.

Bolabás

Bolabás kallast sérstæður gatklettur í sjávarhömrunum í austanverðri Dyrhólaey. Þessi skemmtilega jarðmyndun getur verið afskaplega fögur í sumarblíðu en er fljót að umbreytast í stormasömu veðri. Þjóðsaga segir að vætti nokkuð héldi til í Bolabás. Vættið þekkist sem Eiðisboli og hljóðar hann ákaflega ef óveður nálgast. Hægt er að hlusta eftir djúpum taktföstum öldugangi við Bolabás sem gæti gefið til kynna að stormur nálgist.