Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Um svæðið

Þann 17. júní 2020 var Geysissvæðið friðlýst sem náttúruvætti. Náttúruvættið er 1,2 km2 að stærð og hefur Umhverfisstofnun umsjón og eftirlit með því.

Markmiðið með friðlýsingu náttúruvættisins er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að tryggja að svæðið nýtist til fræðslu og vísindarannsókna en fræðslu og vísindagildi svæðisins er hátt á lands- og alþjóðavísu. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að því að náttúrufar sem raskað hefur verið verði endurheimt og það fært til fyrra horfs eins og unnt er.

Eftirfarandi er óheimilt: 

  • Allt rask á jarðminjum, þ.m.t. hvers konar áletranir og rask á virkni og vatnsstöðu hverasvæðisins, rask á hverahrúðri, hverum, jarðvegi og steinum, nema að fengnu leyfi sbr. 11. gr
  • Að brjóta og nema á brott hverahrúður, jarðveg og steina
  • Allar breytingar á jarðmyndunum eru óheimilar nema vegna verndarráðstafana á vegum Umhverfisstofnunar
  • Að breyta vatnshæð eða vatnsflæði um svæðið eða skerða á annan hátt virkni eða náttúrufarsleg einkenni friðlýsta svæðisins að því undanskildu að heimilt er að nýta yfirborðsvatn sbr. 11. gr.
  • Að bera sápu eða annað efni í hveri og laugar á verndarsvæðinu
  • Að elda eða sjóða matvæli í hveraleir, hverum og laugum að undanskildum brauðbakstri eins og hefð er fyrir á svæðinu
  • Hvers konar losun og varp í hveri, laugar og afrennsli þeirra, s.s. á steinum, peningum og sápum
  • Böð í hverum, laugum og í afrennsli þeirra á hverasvæðinu

Til verndar hverahrúðri og mögulegri endurnýjun þess og af öryggisástæðum skulu allir gestir svæðisins fylgja merktum göngustígum innan hverasvæðisins.