Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Stök frétt

Opinn kynningarfundur var haldinn í Miklagarði, félagsheimili Vopnafjarðar 14. janúar 2009 kl. 17 þar sem ferill við gerð starfsleyfa og tillaga að starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju HB Granda var kynnt nánar.

Við umræður að lokinni kynningu Umhverfisstofnunar rakti fulltrúi HB Granda hver staða framkvæmda væri en þær hafa verið í höndum Héðins hf. Upplýsti hann að mjöltankarnir yrðu málaðir í sumar en þeir setja mikinn svip á svæðið. Rætt var um hvaða starfsleyfi væri í gildi núna þar sem enn væri eftir að ljúka auglýsingaferli og útgáfu starfsleyfisins og var upplýst að eldra starfsleyfi HB Granda á Vopnafirði væri enn í gildi.

Þá urðu umræður um lyktareyðingu en lyktareyðing með svokölluðum efnaturni hefur ekki verið stunduð áður á Íslandi. Bundnar eru vonir við að þessi tækni bæti mikið úr lyktarmengun á staðnum og er ljóst af umræðunum að íbúarnir munu fylgjast vel með því hvernig til tekst. Besta vörnin gegn lyktarmengun er vissulega að koma með gott hráefni til lands og með sem lægstum TVN-gildum, en þó kom fram að ekki væri hægt að útiloka óhöpp í þessu sambandi og að slæmt hráefni berist að landi. Verði slík óhöpp reynir á samskipti verksmiðjunnar við íbúa og eftirlitsaðila. Skorað var á fulltrúa fyrirtækisins að koma ítarlegum upplýsingum um slík mál til íbúa, helst áður en látið er til skarar skríða við bræðsluna.

Þá standa vonir til að grútarmengun og önnur mengun til sjávar minnki með bættum ferlum við vinnsluna. Umræður urðu um orminn langa” sem er frárennslisrör verksmiðjunnar í sjó. Kom fram að það hefur borið á því að það sé ekki nógu vel fest. Nú hefur verksmiðjan enn farið yfir það hvernig festa skuli rörið og vonuðust fundarmenn til að framvegis yrði þetta vandamál úr sögunni.

Tillögurnar ásamt umsóknargögnum munu liggja frammi á bæjarskrifstofu Vopnafjarðar á tímabilinu 7. janúar til 4. mars 2010. Gögnin eru einnig aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn skriflegum athugasemdum til Umhverfisstofnunar er til 4. mars 2010.