Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Niðurstöður mælinga á styrk flúors í grasi gefa til kynna að uppsöfnun flúors í grasi sé meiri nú í júlímánuði en áður hefur mælst í reglubundinni vöktun flúors á svæðinu. Meðalstyrkur flúors í grasi utan þynningarsvæðis álversins var 82,5 µg/g úr grassýnum sem tekin voru 6.-7. júlí og 81,4 µg/g úr grassýnum sem tekin voru 20.-21. júlí sl. Meðalstyrkur flúors í grasi úr þeim fjórum sýnatökum sem framkvæmdar hafa verið það sem af er sumri er 52,6 µg/g utan þynningarsvæðis.

Flúor í andrúmslofti sest að mestu leyti utan á gróður sem skolast svo niður í jarðveg í rigningum. Veðurfar á Austurlandi hefur verið óvenju heitt, þurrt og stillt í sumar sem skýrir að miklu leyti þessa auknu uppsöfnun flúors í grasi í firðinum. Losna má við stóran hluta af flúori af yfirborði matjurta eins og salats og berja með því að skola vel með vatni fyrir neyslu. Náið er fylgst með þróun á uppsöfnun flúors á svæðinu í samræmi við Umhverfisvöktunaráætlun álvers Alcoa Fjarðaáls sem samþykkt hefur verið af Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun mun rýna niðurstöður þeirrar vöktunar jafnóðum og þær liggja fyrir.