Stök frétt

Bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2023 hafa nú verið gefnar út ásamt umfjöllun um þær sem má nálgast hér.

  • Samfélagslosun Íslands dróst saman um 2,8% milli 2022 og 2023 og 14% frá árinu 2005.

  • Losun frá staðbundnum iðnaði á Íslandi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir dróst saman um 3,3% milli 2022 og 2023 og losun frá flugstarfsemi sem fellur undir ETS kerfið og undir umsjón íslenskra stjórnvalda jókst um 11% milli ára.
  • Losun frá landnotkun stóð nánast í stað milli 2022 og 2023.

  • Heildarlosun Íslands dróst saman um 1,3% milli 2022 og 2023 en hefur aukist um 4,3% frá árinu 2005.

Þessum bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er skilað til ESB í júlí ár hvert og hafa þær sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum í apríl 2025 þar sem sífellt er unnið að endurbótum á losunarbókhaldi Íslands til að auka gæði og áreiðanleika gagnanna. Síðustu lokaskil voru í apríl 2024 og má finna ítarlega samantekt á þeim gögnum í vefsamantekt um losun gróðurhúsalofttegunda.