Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Norrænt eftirlitsverkefni um flokkun og merkingar efnavara á byggingavörumarkaði

 

Inngangur

Verkefnið sem hér um ræðir var unnið í samvinnu allra Norðurlandanna og náði til algengra hættulegra efnavara á byggingavörumarkaði sem falla undir sameiginlega löggjöf landanna um flokkun og merkingar. Í úrtaki lentu samtals 105 vörur, eða um 20 í hverju landi og skoðað var annars vegar hvort merkingar á þeim, og hins vegar hvort öryggisblöð fyrir þær, uppfylltu kröfur reglugerðar þar um.

Um merkingar á hættulegum vörum gildir reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda, en hún innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1272/2008 sama heitis (CLP reglugerð). Merkingar á vörum sem flokkast hættulegar skulu vera íslensku þegar þær eru settar á markað hér á landi. Þess ber geta að vörur sem innhalda hættuleg efni og markaðssettar voru eftir 1. júní 2015 skulu allar bera nýjar og uppfærðar merkingar samkvæmt CLP reglugerðinni en þær sem komu á markað fyrir þann tíma máttu vera með eldri merkingum fram til 1. júní 2017.

Um gerð öryggisblaða gildir reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni en hún innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1902/2006, svokallaða REACH reglugerð.

Tilgangur

  • Að athuga hvort fylgt sé ákvæðum reglugerða um flokkun og merkingu á umbúðum málningar- og byggingarvara, sem og um öryggisblöð. 
  • Að fræða birgja og söluaðila um reglugerðir sem gilda um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni og öryggisblöð þeirra.
  • Að auka neytendavernd.

Framkvæmd

Byggingarvöruverslanirnar Bauhaus, Byko, Húsasmiðjan og Múrbúðin féllu undir umfang eftirlitsins hér á landi og skoðaðar voru 5 merkingarskyldar vörur í hverri verslun, eða alls 20 vörur í verkefninu í heild. Af þessum 20 vörum höfðu ofangreindir aðilar sjálfir flutt til landsins 17 vörur, en 3 eru framleiddar af Málningu ehf. Við val á úrtaki komu vörur í einhverjum af eftirfarandi vöruflokkum til greina: málning, lím, lökk, grunnur, sement, viðarvarnarefni, þéttiefni, kítti, fylliefni, smurefni, epoxývörur. Eftirlitsferðir voru farnar um miðjan janúar 2017.

Í kjölfar eftirlits var haft samband við fyrirtækin og óskað eftir öryggisblöðum fyrir þær vörur sem voru í úrtakinu en þau voru höfð til hliðsjónar við mat á því hvort merkingar á umbúðum væru í lagi. Jafnframt var það sérstakur hluti af verkefninu að leggja mat á gæði öryggisblaða.

Niðurstöður

Í eftirlitinu hér á landi reyndust 8 vörur af 20 vera án frávika en 12 vörur uppfylltu ekki kröfur um merkingar og skiptust frávikin þannig að á fimm vörur vantaði alfarið íslenskar merkingar, uppfæra þurfti merkingar að nýjum reglum fyrir fimm vörur, í einu tilfelli voru ekki uppfyllt skilyrði um lágmarksstærð hættumerkis og á eina vöru vantaði viðeigandi hættusetningar. Meðfylgjandi tafla gefur yfirlit yfir frávikin.

 

Fjöldi vara

Hlutfall (%)

Vörur í úrtaki

20

 

Vörur án frávika

8

40%

Vörur sem á vantaði alfarið íslenskar merkingar

5

25%

Uppfæra þarf eldri íslenskar merkingar í samræmi við reglugerð (CLP)

5

25%

Hættumerki uppfyllir ekki skilyrði um lágmarksstærð

1

5%

Rangar hættusetningar voru á umbúðum

1

5%

 

Gerðar voru kröfur um úrbætur á merkingum vara sem ekki uppfylltu skilyrði CLP reglugerðarinnar og hafa öll fyrirtækin brugðust við þeim á viðeigandi hátt. Jafnframt voru gerðar kröfur eða veittar ábendingar um lagfæringar hvað varðar öryggisblöð en oft á tíðum reyndust þau vera á erlendum tungumálum, en ekki íslensku eins og krafa er gerð um í REACH reglugerðinni. Þá bar nokkuð á því að öryggisblöð á íslensku þörfnuðust uppfærslu í samræmi við sömu reglugerð. Í einhverjum tilfellum vantaði símanúmer Eitrunarmiðstöðvar eða rangt númer var gefið upp.

Ekki er krafist öryggisblaða á íslensku fyrir neytendavörur en þau þarf að afhenda ef eftirnotandi eða dreifingaraðili óskar eftir þeim. Eftirlit  með öryggisblöðum í faglegri notkun heyrir undir Vinnueftirlit ríkisins.

Meginiðurstaða norræna verkefnisins var, að af 105 vörum sem skoðaðar voru reyndust 48 vörur (46%) vera með eitt eða fleiri frávik frá CLP reglugerðinni og þar af var algengast að finna frávik frá 21. grein CLP reglugerðarinnar, sem varðar hættusetningar, eða í 18% tilvika. Önnur frávik sneru að álímingu merkimiða, vörukenni, viðbótarupplýsingum og viðvörunarorðum.

Hvað öryggisblöð varðar var algengast að frávik finndust undir liðum 2, 3, 9, 11 og 12 (26%). Einnig vantaði undirliði í mörg öryggisblöð (22%). Önnur frávik sneru að því að enn má sjá tvöfalda flokkun í undirliðum 2.1, 2.2 og 3.2 í öryggisblöðunum, þ.e.a.s. bæði samkvæmt eldri löggjöf og þeirri sem nú er í gildi.

Hér á landi er algengara en á hinum Norðurlöndunum að merkingar á þjóðtungu í samræmi við  CLP reglugerð vanti alfarið á umbúðir vara sem flokkast sem hættulegar og jafnframt ber meira á því að uppfærslu á merkingum í samræmi við reglugerðina skorti. Rétt er að benda á að eftirlitið fór fram liðlega fimm mánuðum áður en nýjar reglur um flokkun og merkingar tóku alfarið gildi, en við það var  ekki lengur leyfilegt að setja á markað vörur merktar samkvæmt eldri reglum.

Hér má sjá sameiginlega skýrslu samnorræna hópsins