Markaðseftirlit með merkingum á skoteldum

Inngangur


Vegna sprengihættu sem stafar af skoteldum ber að merkja þá í samræmi við reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda. Reglugerðin innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1272/2008 með sama heiti, sem oft er kölluð CLP-reglugerðin, en CLP stendur fyrir „Classification, Labelling and Packaging of substances and mixtures”. 

Skoteldar eiga samkvæmt þessum reglugerðum að bera hættumerkið „Sprengifimt“ ásamt stöðluðum hættu- og varnaðarsetningum á íslensku sem lýsa eðli hættunnar og leiðbeina um örugga notkun, geymslu og förgun. Sömuleiðis er krafa um að viðvörunarorð á íslensku komi fram á umbúðunum, annað hvort „Varúð“ eða „Hætta“ og lýsir hið síðarnefnda alvarlegri hættueiginleikum. 

Um merkingar skotelda gilda jafnframt ákvæði reglugerðar nr. 414/2017 sem tekur einnig til atriða eins og markaðssetningar, samsetningar, öryggis og meðferðar og er Neytendastofu falið eftirlit samkvæmt henni.

Tilgangur

  • Að athuga hvort fylgt sé ákvæðum reglugerðar nr. 415/2014 um merkingar á skoteldum sem eru á markaði hér á landi. 
  • Að fræða birgja og söluaðila um reglur sem gilda um þessar merkingar.
  • Að auka neytendavernd.


Framkvæmd

Í úrtaki eftirlitsins voru vörur frá þeim sex birgjum sem markaðsetja skotelda hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í eftirlitsferðir á milli jóla og nýárs 2018 og skoðuð 4-5 sýnishorn af skoteldum á hverjum sölustað, sem voru eftir atvikum rakettur, skotkökur eða gos. Í 1. töflu má sjá má lista yfir birgja og þá sölustaði sem farið var á í eftirlitinu. 

1. tafla. Birgjar og sölustaðir.

Niðurstöður

Frávik frá gildandi reglum komu fram á öllum þeim vörum sem lentu í úrtakinu. Í 13 tilfellum (52%) vantaði allar skyldubundnar merkingar og á 4 vörum (16%) voru aðeins merkingar á erlendum tungumálum. Hjá tveimur birgjum voru íslenskar merkingar til staðar á vörunum en viðvörunarorð, hættu- og varnaðarsetningar ekki fyllilega í samræmi við reglugerðina. Í 2. töflu má sjá hvernig frávikin dreifðust á mismunandi birgja og hlutfallslega dreifingu frávika samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins.

2. tafla. Yfirlit yfir fjölda vara í úrtaki og frávika hjá hverjum birgi

Birgjum var veittur þriggja vikna frestur til að senda stofnuninni tillögur að réttri merkingu varanna í samræmi við ofangreindar reglugerðir og brugðust fjórir þeirra við innan frestsins á fullnægjandi hátt en tveimur aðilum gefinn viðbótarfrestur til að verða við kröfum um úrbætur. Jafnframt var bent á skyldur birgja að sjá til þess að réttar merkingar séu á sölueintökum skotelda sem þeir setja á markað og áréttað þessu verði komið í rétt horf á næsta sölutímabili um áramótin 2019-2020.