Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Sæfivörur á markaði í vöruflokki 19 með áherslu á fæliefni gegn skordýrum

Inngangur

Samhliða fjölgun og aukinni dreifingu á lúsmýi um landið síðustu ár hefur eftirspurn eftir fæliefnum gegn skordýrum aukist og hafa þau sem innihalda virka efnið DEET verið sérlega vinsæl í baráttunni við bitvarginn. Markmið efnalaga nr. 61/2013 er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu efnavara. Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar samkvæmt efnalögum er að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablandna sem falla undir lögin og vegna aukinnar eftirspurnar eftir fæliefnum gegn skordýrum taldi stofnunin ástæðu til að kanna stöðu fæliefna á markaði.

Fæliefni og löðunarefni er einn af 22 vöruflokkum sæfivara en um þær gildir reglugerð nr. 878/2014 sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert áætlun um áhættumat virkra efna til notkunar í sæfivörum og á áhættumati allra virkra efna á að vera lokið í árslok árið 2024. Í kjölfar áhættumats er virkt efni annað hvort samþykkt til notkunar í sæfivörum eða ekki. Ef sæfivara inniheldur aðeins virk efni sem hafa verið samþykkt í áhættumati fyrir tiltekinn vöruflokk þarf hún markaðsleyfi svo heimilt sé að bjóða hana fram á markaði. Margar vörur eru nú þegar með markaðsleyfi og enn fleiri munu þurfa markaðsleyfi á komandi árum.

Í eftirlitsverkefninu var lögð sérstök áhersla á að skoða fæliefni gegn skordýrum sem innihalda virku efnin DEET (CAS nr. 134-62-3) og/eða etýlbútýlasetýlamínóprópíónat (CAS nr. 52304-36-6) m.t.t. hvort vörurnar uppfylli skilyrði um markaðsleyfi. Þessi virku efni hafa hvort tveggja verið samþykkt í áhættumati til notkunar í fæliefnum og því er óheimilt að markaðssetja vörur sem innihalda þau án markaðsleyfis nema að þær innihaldi annað virkt efni sem er enn í áhættumati í sama vöruflokki.

Framkvæmd og niðurstöður

Eftirlitsferðir voru framkvæmdar á tímabilinu frá 12. ágúst til 1. október 2020. Farið var í eftirlit hjá 19 fyrirtækjum, þ.e. 12 lyfjaverslunum, 3 byggingavöruverslunum og 4 verslunum með veiðivörur. Aðeins fundust fjórar vörutegundir sem féllu undir umfang eftirlitsins, þ.e. samtals 17 vörur í 12 verslunum. Allar vörurnar innihéldu virka efnið DEET og engin þeirra reyndist vera með frávik. Engin vara fannst sem inniheldur etýlbútýlasetýlamínóprópíónat.

Tafla 1: Vörutegundir sem fundust í eftirlitinu og fjöldi sölustaða.
Vara Fjöldi sölustaða
Mygga Spray 50% DEET 4
Mygga Rollon 20% DEET 2
Mygga Spray 9,5% DEET 1
Moustidose Spray Répulsif Anti-Moustiques 10

Vörutegundir Mygga eru allar með markaðsleyfi en varan Moustidose Spray Répulsif Anti-Moustiques inniheldur ásamt DEET virka efnið Eucalyptus citriodora oil, hydrated, cyclized sem er enn í áhættumati og því þarf varan ekki markaðsleyfi um sinn.

Niðurstöður eftirlitsins gefa til kynna að innflytjendur fæliefna gegn skordýrum séu meðvitaðir um að bjóða aðeins fram á markaði vörur sem uppfylla skilyrði skv. reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur.

Tafla 2: Eftirlitsþegar sem féllu undir umfang eftirlitsins.
Fyrirtæki Starfsemi
Apótek Garðabæjar ehf. Lyfjaverslun
Apótek Hafnarfjarðar ehf. Lyfjaverslun
Apótekarinn / Lyf og heilsa hf. Lyfjaverslun
Apótekið Spönginni Lyfjaverslun
Bauhaus slhf. Smásala á járn- og byggingavöru í sérverslunum
Byko ehf. Smásala á járn- og byggingavöru í sérverslunum
Costco Wholesale Iceland ehf. – apótek Stórmarkaður og marvöruverslun
Dýjaveitur ehf. (Veiðifélagið) Smásala á íþrótta- og tómstundabúnaði í sérverslunum
Garðs Apótek ehf. Lyfjaverslun
Húsasmiðjan ehf. Skútuvogi Smásala á járn- og byggingavöru í sérverslunum
Lyf og heilsa hf. Granda Lyfjaverslun
Lyfja hf. Lágmúla Lyfjaverslun
Lyfjaval ehf. Mjódd Lyfjaverslun
Lyfjaver ehf. Lyfjaverslun
Lyfsalinn ehf. Lyfjaverslun
Rima Apótek ehf. Lyfjaverslun
Bráð ehf. (Veiðihornið) Smásala á íþrótta- og tómstundabúnaði í sérverslunum
Vesturröst sportveiðiversl ehf. Smásala á íþrótta- og tómstundabúnaði í sérverslunum
Zircon ehf. (Veiðiportið) Blönduð heildverslun