Tannhvítunarvörur til sölu í vefverslunum

Tilgangur og markmið:

Að ganga úr skugga um að tannhvítunarvörur sem eru til sölu á vefsíðum innihaldi ekki vetnisperoxíð né efni sem losa peroxíð yfir leyfilegum mörkum fyrir vörur sem eru í almennri sölu.

Framkvæmd og helstu niðurstöður:

Vörur til tannhvítunar, til sölu fyrir almenning, mega ekki innihalda meira en 0,1 % af vetnisperoxíð (hydrogen peroxide) eða ígildi þess.  Ef vörurnar innihalda vetnisperoxíð eða ígildi þess á bilinu 0,1% - 6% má eingöngu selja þær tannlæknum og skal fyrsta notkunin í hverri notkunarlotu eingöngu framkvæmd af tannlækni eða undir beinu eftirliti hans. Efni sem notuð eru til tannhvítunar og losa vetnisperoxið eru t.d. carbamide peroxide, 6-phtalimido-peroxy-hexonic acid og sodium perborat.

Leitað var að vörum sem boðnar eru á sölu í vefverslunum þar sem ljúka mátti kaupum eingöngu á netinu.  Í úrtaki voru aðeins vörur sem eru sérstaklega ætlaðar til tannhvítunar og því voru tannkrem undanskilin.

Í kjölfar vefsíðuleitar fór Umhverfisstofnun í eftirlitsferð hjá tveimur fyrirtækjum þar sem kannað var hvort tannhvítunarvörur sem þar voru í sölu til almennings innihéldu vetnisperoxíð yfir leyfilegum mörkum sbr. III. viðauka reglugerðar (ESB) nr. 1223/2009 um snyrtivörur sem innleidd er með reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur. Skoðaðar voru sjö vörur sem féllu undir umfang eftirlitsins.

Eftirfarandi eftirlitsþegar féllu undir umfang verkefnisins:

Fyrirtæki:

Starfsemi:

Vefsíða

Lyfja hf

Smásala

www.lyfja.is

Daría

smásala

www.daria.is

Einungis fannst ein vara sem reyndist innihalda vetnisperoxíð eða efni sem losa peroxíð við niðurbrot.  Í gögnum frá framleiðanda vörunnar kom fram að losun/styrkur vetnisperoxíðs væri ekki hærri en 0,1% af heildarþyngd efnablöndu tilbúinni til notkunar, sem er í samræmi við takmarkanir um innihaldsefni sbr. III. viðauka reglugarðar (ESB) nr. 1223/2009 um snyrtivörur.  Þannig fannst engin tannhvítunarvara við eftirlitið sem innihélt vetnisperoxíð yfir leyfilegum mörkum fyrir vörur sem eru í sölu til almennings.