Úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2019

Tilgangur og markmið:

  • Að leggja mat á það hve mikið af plöntuverndarvörum berast til landsins á hverju ári með hliðsjón af upplýsingum um tollafgreiðslur frá Tollgæslunni og frá þeim fyrirtækjum sem markaðssetja þessar vörur.
  • Að athuga hvort tollflokkun sé hugsanlega ábótavant, leiðrétta og leiðbeina hlutaðeigandi fyrirtækjum um tollflokkun þannig að upplýsingar um tollafgreiðslu plöntuverndarvara gefi raunsanna mynd af því hve mikið er sett af þessum vörum á markað hér á landi.

Framkvæmd og helstu niðurstöður:

Í úttektinni var athyglinni beint að plöntuverndarvörum í eftirfarandi tollflokkunum:

  • 3808.9102: Skordýraeyðir sem plöntulyf (plöntuverndarvara)
  • 3808.9202: Sveppaeyðir sem plöntulyf (plöntuverndarvara)
  • 3808.9300: Illgresiseyðir (plöntuverndarvara)
  • 3808.9309: Annað

Gögn frá Tollgæslunni um tollafgreiðslu ásamt gögnum frá fyrirtækjum sem markaðssetja plöntuverndarvörur voru nýtt til að taka saman upplýsingar um það hve mikið af vörunum var sett á markað á árinu 2019. Samkvæmt úttektinni fengu sjö fyrirtæki tollafgreiddar plöntuverndarvörur á árinu sem skiptust niður á 22 sendingar.

Alls voru tollafgreidd 8,3 tonn af plöntuverndarvörum á árinu 2019 og hefur magnið því dregist saman umtalsvert á milli áranna 2018 og 2019, eða um 54% (1. mynd). Gögn sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman um tollafgreiðslu á plöntuverndarvörum fyrir árin 2009-2019 sýna þá þróun að innflutningur þessara vara hefur dregist saman á tímabilinu og er nú aðeins um fjórðungur af því sem var 2009. Talsverðar sveiflur eru þó milli ára, en meginástæðan fyrir þeim er sú, að teknar eru inn stórar sendingar af vörum sem nokkur ár tekur að selja. Af þeim plöntuverndarvörum sem fluttar voru inn árið 2019 reyndust 71% vera illgresiseyðar og stýriefni en 29% skordýra- og sveppaeyðar, þannig að illgresiseyðar eru því enn stærsti hluti plöntuverndarvara á markaði líkt og á fyrri árum.


1. Mynd: Tollafgreiðsla á plöntuverndarvörum 2016-2019 í kg. alls.

Þegar meta á áhrif plöntuverndarvara á heilsu og umhverfi gefur magn virkra efna mun betri vísbendingar um raunverulegt álag heldur en heildarmagnið sem sett er á markað og þar sem styrkur virku efnanna í plöntuverndarvörum liggur alltaf fyrir er hægt að reikna út hve ákveðið heildarmagn af vöru samsvarar miklu magni af virkum efnum. Sé það reiknað út fyrir innflutning ársins 2019 kemur í ljós að innflutningur á virkum efnum nam um 1000 kg og er það mikill samdráttur frá fyrra ári (2. mynd). 



Upplýsingar sem aflað er á þennan hátt nýtast til þess að reikna út áhættuvísa sem settir eru fram í Aðgerðaráætlun um notkun varnarefna 2016-2031. Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki nema meiru en 12 tonnum alls á ári og sýna niðurstöður verkefnisins að því markmiði var náð á árinu 2019 fyrir heildarmagn varanna. Einnig náðist það markmið að innflutningur sé ekki meiri en sem nemur 3 tonnum af virku efni á ári.