Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Eftirlit með efnainnihaldi og merkingum handsótthreinsa

CASP CORONA

Umhverfisstofnun tók þátt í samevrópsku eftirlitsverkefni á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem áhersla var lögð á að skoða efnainnihald handsótthreinsa. Verkefnið var sett upp vegna mikillar aukningar á notkun handsótthreinsis vegna heimsfaraldurs af völdum kórónuveiru sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Heimsfaraldurinn leiddi til þess að margir nýir framleiðendur komu inn á markaðinn á stuttum tíma og þeir sem fyrir voru juku margir hverjir framboð sitt.

Hvert aðildarríki fékk að velja þrjár vörur og senda tvö eintök af hverri til efnagreiningar en það var rannsóknarstofan FORCE Technology í Danmörku sem framkvæmdi þær. Umhverfisstofnun fékk skýrslu fyrir hverja vöru með niðurstöðum efnagreininganna og skoðaði í kjölfarið hvort að upplýsingar á merkimiða og í öryggisblaði væru í samræmi við niðurstöðurnar, sbr. 69. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, c)-lið 1. mgr. 17. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008 (CLP) og II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1907/2006 (REACH). Jafnframt var skoðað hvort að aðrar merkingar vörunnar væru í samræmi við CLP reglugerðina.

Umhverfisstofnun valdi þrjá handsótthreinsa sem eru allir framleiddir hér á landi og eiga það sameiginlegt að innihalda virku efnin etanól og própan-2-ól. Þeir innihalda einnig allir virk efni í það háum styrkleika að þeir drepi veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Handsótthreinsarnir sem urðu fyrir valinu voru eftirfarandi:

  • HANDEX 85 handgerileyðir í 600 ml glærum HDPE plastbrúsa með dælu frá Tandri hf.
  • Gerildeyðir handspritt 85% í 600 ml glærum HDPE plastbrúsa með dælu frá Mjöll-Frigg ehf.
  • Númer eitt handspritt 75% með sítrónu ilmkjarnaolíu og hafþyrnisolíu í 300 ml dökkum PET plastbrúsa með dælu frá Mulier Fortis ehf.

Niðurstaða úr efnagreiningum

Mælt magn virkra innihaldsefna í vörunum Gerildeyðir handspritt 85% og Númer eitt handspritt 75% með sítrónu ilmkjarnaolíu og hafþyrnisolíu var ekki í samræmi við uppgefið magn í öryggisblöðum eða á merkingum varanna. Frávik vegna þess fyrir vöruna Gerildeyði handspritt 85% var sent til Neytendastofu til þóknanlegrar meðferðar. Bæði eintök vörunnar Númer eitt handspritt 75% með sítrónu ilmkjarnaolíu og hafþyrnisolíu, sem voru send til efnagreiningar, höfðu lekið við móttöku á rannsóknarstofu en líklegt er að það hafi haft áhrif á mældar niðurstöður og því var ekkert frávik gert vegna þess misræmis. Báðar þessar vörur höfðu villandi vöruheiti fyrir neytendur m.t.t. styrks alkóhóls í vörunni og var frávik vegna þess sent Neytendastofu til þóknanlegrar meðferðar.

Allar þrjár vörurnar reyndust innihalda alkóhól í þeim styrkleika að vörurnar teljist nægilega virkar gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

CLP frávik

Allar vörurnar innihalda alkóhól í það miklum styrkleika að hættusetningin H225 skal vera á merkimiða í samræmi við samræmda hættuflokkun innihaldsefna varanna. Vara sem hefur þessa hættusetningu skal einnig hafa áþreifanlega viðvörun á umbúðum sínum en engin varanna þriggja hafði slíka merkingu og var gert frávik vegna þess.

Við vöruna HANDEX 85 handgerileyði var einnig gert frávik vegna þess að hættusetninguna H225 vantaði á merkingar vörunnar og vegna misræmis á hugtakanotkun fyrir auðkenningu innihaldsefna milli öryggisblaðs og merkimiða. Við vöruna Gerildeyðir handspritt 85% voru einnig gerð frávik vegna þess að viðvörunarorð vantaði alfarið á merkingar ásamt hættusetningum. Jafnframt voru varnaðarsetningar ekki í samræmi við hættuflokkun vörunnar og of breitt styrkleikasvið fyrir etanól í öryggisblaði.

Nánar má lesa um niðurstöður eftirlitsins í eftirlitsskýrslum, sem finna má inni á vefsíðu Umhverfisstofnunar, en fyrirtækin hafa öll sent Umhverfisstofnun staðfestingu á úrbótum vegna frávika frá CLP reglugerðinni.

Eftirlit með handsótthreinsum - Framhaldsverkefni

Í kjölfar niðurstöðu úr CASP CORONA eftirlitsverkefninu og þess að Umhverfisstofnun bárust ábendingar um handsótthreinsa sem boðnir væru fram á markaði uppfylltu mögulega ekki kröfur um merkingar og þá sérstaklega kröfu um áþreifanlega viðvörun ákvað stofnunin að hefja eftirlitsverkefni sem framhald af CASP CORONA verkefninu. Stofnunin skoðaði þá handsótthreinsa sem voru til sölu í þeim fjórum verslunum sem ábendingarnar áttu við, m.t.t. hvort að þeir uppfylltu skilyrði um markaðssetningu og merkingar, sbr. reglugerð (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra og reglugerð (EB) nr. 1272/2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og efnablandna (CLP).

Ábendingarnar snéru sérstaklega að kröfu um áþreifanlega viðvörun en í lið 3.2. í II. viðauka CLP kemur fram að skylt er að setja slíka viðvörun á umbúðir vöru sem flokkast m.t.t. eftirfarandi flokka:

  • bráð eiturhrif – 1. til 4. undirflokkur (H300, H301, H302, H310, H311, H312, H330, H331, H332)
  • húðæting (H314)
  • stökkbreytandi áhrif á kímfrumur – 2. undirflokkur (H341)
  • krabbameinsvaldandi áhrif – 2. undirflokkur (H351)
  • eiturhrif á æxlun – 2. undirflokkur (H361)
  • næming öndunarfæra (H334)
  • sértæk áhrif á marklíffæri (SEM) – 1. og 2. undirflokkur (H370, H371, H372, H373)
  • ásvelgingarhætta (H304)
  • eldfimar lofttegundir, vökvar og föst efni – 1. og 2. undirflokkur (H220, H221, H224, H225, H228)

Framkvæmd og niðurstöður

Farið var í eftirlit í þær verslanir sem ábendingarnar áttu við en þær eru eftirfarandi:

  • Hagkaup, Faxafeni 10, 108 Reykjavík
  • Krónan, Bíldshöfða 20, 110 Reykjavík
  • Lyfja, Skeifunni 11b, 108 Reykjavík
  • Rekstrarvörur, Réttarhálsi 2, 110 Reykjavík

Alls voru 13 vörur skoðaðar sem átta birgjar voru ábyrgir fyrir markaðssetningu á og reyndust 10 þeirra vera með frávik frá gildandi reglum sem gerir tíðni frávika 76,9%. Algengasta frávikið var að viðvörunarorð vantaði eða var rangt eða hjá alls níu vörum. Átta vörur voru með frávik vegna hættu- og varnaðarsetninga þar sem orðalagið var ekki í samræmi við reglugerð CLP eða þær vantaði alfarið. Á fimm vörur vantaði áþreifanlega viðvörun eða í um 38,5% tilvika og var hlutfall vara án áþreifanlegrar viðvörunar lægra en búist var við. Enginn handsótthreinsir sem tekinn var fyrir í eftirlitinu þarf markaðsleyfi eins og er þar sem allir innihéldu etanól en áhættumati fyrir notkun þess í vöruflokki 1, hreinlætisvörur fyrir fólk, er ekki lokið og því gilda umbreytingarráðstafanir, sbr. 89. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 (BPR). Tafla 1 sýnir þá birgja sem bera ábyrgð á markaðssetningu handsótthreinsanna sem skoðaðir voru ásamt fjölda vara hjá hverjum birgja og hve margar þeirra reyndust vera með frávik.

Tafla 1: Birgjar handsótthreinsanna sem féllu undir umfang verkefnisins ásamt fjölda vara og fjölda vara með frávik.
Birgir Starfsemi Fjöldi vara Fjöldi vara með frávik
(hlutfall)
Artasan ehf. Heildverslun með lyf og lækningavörur (Aðal) 2 1
(50%)
Aðföng
(Hagar Verslanir ehf.)
Stórmarkaðir og matvöruverslanir (Aðal) 1 0
(0%)
Essei ehf. Heildverslun með ilmvötn og snyrtivörur (Aðal) 1 1
(100%)
Heilsa ehf. Blönduð heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak (Aðal) 1 1
(100%)
Krónan ehf. Stórmarkaðir og matvöruverslanir (Aðal) 2 2
(100%)
Rekstrarvörur ehf. Heildverslun með hreingerningarefni (Aðal) 4 3
(75%)
Sóley Organics ehf. Framleiðsla á ilmvatni og snyrtivörum (Aðal) 1 1
(100%)
Takk hreinlæti ehf. Heildverslun með hreingerningarefni 1 1
(100%)
Samtals: 13 10
(76,9%)

Nánar má lesa um niðurstöður eftirlitsins í eftirlitsskýrslum, sem finna má inni á vefsíðu Umhverfisstofnunar.