Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Merkingar samkvæmt CLP

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 1272/2008 (CLP reglugerð) var innleidd með reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.

Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram í merkingu á hættulegu efni/blöndu eins og lýst er í 17. grein reglugerðarinnar:

  • nafn, heimilisfang og símanúmer birgis eða birgja.
  • tilgreint magn efnisins eða blöndunnar í vöru sem er tiltæk almenningi nema magnið sé tiltekið annars staðar á umbúðunum.
  • innihaldsefni (vörukenni)
    í tilfelli efnis: efnaheiti og CAS/EB(EC) númer þess.
    í tilfelli blöndu: vöruheiti og heiti allra þeirra efna í blöndunni sem hafa áhrif á flokkun hennar að því er varðar bráð eiturhrif, húðætingu eða alvarlegan augnskaða, stökkbreytandi áhrif á kímfrumur, krabbameinsvaldandi áhrif, eiturhrif á æxlun, næmingu öndunarfæra eða húðnæmingu, sértæk eiturhrif á marklíffæri (SEM) eða ásvelgingarhættu.
  • hættumerki, sem vísa á myndrænan hátt til hættunnar sem af efninu getur stafað.
  • viðvörunarorð – hætta/varúð.
  • hættusetningar, sem tilgreina nánar hættueiginleika.
  • viðeigandi varnaðarsetningar, velja skal viðeigandi setningar til leiðbeiningar um örugga meðhöndlun, varúðarráðstafanir, viðbrögð, geymslu og förgun.
  • reitur fyrir viðbótarmerkingar, þegar þörf krefur.
  • áþreifanleg viðvörun, þegar þörf krefur.

 

Hér má sjá dæmi um íslenskan merkimiða sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt CLP reglugerðinni:

 

 

Viðvörunarorð og hættu- og varnaðarsetningar skulu vera á íslensku. Efnaheiti og auðkennisnúmer þeirra (EB(EC) eða CAS númer) er að finna í efnalistum sem vísað er til í reglugerðinni eða á leitarsíðum fyrir efni.

Viðvörunarorð

Viðvörunarorðið er stigskipt lýsing á því um hve mikla hættu er að ræða. Viðvörunarorðið „Hætta“ er notað til að lýsa alvarlegri hættueiginleikum en „Varúð“ til að lýsa vægari hættueiginleikum. Flokkun efnis eða blöndu segir til um það hvort viðvörunarorðið eigi að nota.

Hættusetningar

Hættusetningar eru staðlaðar setningar sem tilgreina hættulega eiginleika vörunnar út frá uppgefinni flokkun. Þær hættusetningar sem eiga við um hverja flokkun eru settar fram í töflunum í 2. til 5. hluta I. viðauka og í færslum fyrir einstök efni í efnalistanum sem birtur er í 3. hluta VI. viðauka. Ef efni eða blanda er flokkuð í marga hættuflokka eða áhrifategundir innan hættuflokks skal birta allar hættusetningarnar, sem fylgja í kjölfar flokkunarinnar, á merkimiðanum nema þær séu greinilega tvítekning eða óþarfar.

Varnaðarsetningar

Varnaðarsetningar skiptast í almennar varnaðarsetningar, forvarnir, viðbrögð, geymslu og förgun. Varnaðarsetningarnar skulu valdar úr þeim sem settar eru fram í töflunum í 2. til 5. hluta I. viðauka og valdar í samræmi við þær viðmiðanir sem mælt er fyrir um í 1. hluta IV. viðauka, að teknu tilliti til hættusetninganna og fyrirhugaðrar eða tilgreindrar notkunar efnisins eða blöndunnar. Meginreglur um forgangsröðun fyrir varnaðarsetningar:

  • 1.Þegar val á varnaðarsetningum leiðir til þess að tilteknar varnaðarsetningar eru greinilega óþarfar eða ónauðsynlegar fyrir tiltekið efni, blöndu eða umbúðir skal þeim sleppt á merkimiðanum.
  • 2.Ef efni eða blanda er seld til almennings skal ein varnaðarsetning, sem fjallar um förgun efnisins eða blöndunnar sem og förgun umbúðanna, vera á merkimiðanum nema þess sé ekki krafist skv. 22. gr. Í öllum öðrum tilvikum er þess ekki krafist að varnaðarsetning, sem fjallar um förgun, sé birt þegar það er ljóst að förgun efnisins, blöndunnar eða umbúðanna stofnar ekki heilsu manna og umhverfinu í hættu.
  • 3.Á merkimiðanum skulu ekki vera fleiri en sex varnaðarsetningar nema þær séu nauðsynlegar til að gefa til kynna eðli og alvarleika hættanna.

Notkun efnalista

Nýjan lista yfir hættuleg efni er að finna í lista 3.1. í VI. viðauka. Það er listinn yfir hættuleg efni sem eru með samræmda flokkun á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Listinn er aðgengilegur á heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem efnum er nú raðað upp eftir skráarnúmerum (index number). Best er að nota flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu sem er afrakstur tilkynninga frá framleiðendum og innflytjendum efna. Sá listi er aðeins aðgengilegur á heimasíðu Efnastofnunarinnar og þar eru bæði birt samræmd flokkun og tilkynnt flokkun efna. Hægt er að leita að efni eftir CAS eða EC númeri eða efnaheiti á ensku.

Umbúðir og varðveisla

Birgjar skulu tryggja að umbúðir efna og efnablandna séu traustar, ólekar og nægilega öruggar til að varðveita vöruna án þess að skemmdir verði á umbúðum eða innihaldi þeirra við eðlilega meðhöndlun. Jafnframt skulu þeir tryggja að umbúðir efna og efnablandna, sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði, séu hvorki þannig að formi né útliti að þær veki forvitni og athygli barna eða svo að villast megi á þeim og umbúðum undir matvæli, fóður, lyf eða snyrtivörur.

Hættuleg efni, plöntuverndarvörur og útýmingarefni skal varðveita í umbúðum framleiðenda. Jafnframt skulu þau geymd á tryggan hátt og þannig að þau séu aðskilin frá matvælum, dýrafóðri, lyfjum og snyrtivörum og þannig að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Eiturefni, sem og notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur og útrýmingarefni skal geyma í læstum hirslum eða rýmum. Eftir atvikum skal aðgreina efni og efnablöndur í rýmum vegna mögulegrar hættu við blöndun þeirra.

Eftirfarandi kröfur eru sérstaklega gerðar til umbúða hættulegra efna í reglugerðinni. Umbúðir sem innihalda hættuleg efni eða blöndur skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

  1. Umbúðirnar skulu vera þannig hannaðar og gerðar að innihaldið komist ekki í gegnum þær nema í tilvikum þar sem mælt er fyrir um sértækari öryggisbúnað
  2. Efnið í umbúðunum og lokunarbúnaðinum skal hvorki vera þannig að hætta sé á því að það verði fyrir tjóni af völdum innihaldsins né vera líklegt til að mynda hættuleg efnasambönd með því
  3. Umbúðir og lokunarbúnaður þurfa að vera svo sterk og traust að ekki losni um þau og þau standist örugglega það álag sem þau verða fyrir við venjulega meðhöndlun
  4. Umbúðir búnar margnota lokunarbúnaði skulu hannaðar þannig að hægt sé að loka umbúðunum aftur og aftur án þess að innihaldið sleppi út

Fleiri atriði varðandi umbúðir og merkingar

Gerðar eru viðbótarkröfur um umbúðir og merkingar í sérstökum tilfellum. Í II. viðauka er að finna kröfur um viðbótarmerkingar sem nota skal á tilteknar vörur óháð því hvort þörf sé fyrir aðrar merkingar. Úðabrúsa ber t.d. að merkja með sérstökum merkingum. Dæmi um aðrar viðbótarmerkingar er fyrir efnablöndur sem innihalda klór eða ofnæmisvaldandi efni. Viðbótarmerkinga getur verið krafist í öðrum reglugerðum þ.m.t. vegna innihalds hættulegra efna. Það getur átt við um sæfivörur, plöntuverndarvörur, málningu, þvotta- og hreinsiefni og snyrtivörur.

Áþreifanleg viðvörun er litlaus upphleyptur þríhyrningur sem er settur á vörur seldar almenningi til að gera blindum og sjónskertum viðvart um hættu. Skylt er að setja slíka viðvörun á umbúðir vara með flokkunina bráð eiturhrif, húðæting, krabbameinsvaldandi (flokkur 2), stökkbreytivaldandi (flokkur 2), æxlunarskaði (flokkur 2), næmi í öndunarfærum, sértæk áhrif á marklíffæri (STOT), ásvelgingarhætta, eldfimt gas, vökvar og föst efni (flokkar 1 og 2). Fylgja skal staðlinum EN ISO 11683 þegar nota skal áþreifanlega viðvörun.

Öryggislok eru ætluð á vörur sem eru seldar almenningi og eiga að gera börnum erfiðara um vik að komast í hættuleg efni. Skylt er að setja öryggislok á umbúðir vara með flokkunina bráð eiturhrif (flokkar 1-3), húðæting og sértæk áhrif á marklíffæri (STOT).

Stærð umbúða og rými til hættumerkinga

Fylgja skal eftirfarandi töflu við mat á stærð hættumerkinga og rými á umbúðum undir þær. Hvert hættumerki skal að lágmarki vera 1/15 þess rýmis sem ætlað er undir merkinguna og skal hvert merki ekki vera minna en 1 cm2.

Stærð umbúða
Rými (mm)
Stærð hvers hættumerkis (mm)
Allt að 3 lítrum
52 x 74 (A8)
10 x 10 (16 x 16 ef kostur er)
3 til 50 lítrar
74 x 105 (A7)
23 x 23
50 til 500 lítrar
105 x 148 (A6)
32 x 32
500 lítrar eða meira
148 x 210 (A6)
46 x 46

 

Dæmi:

Þvottaefni sem inniheldur eftirfarandi efni:

Natríum karbónat peroxíð, CAS nr. 15630-89-4 (allt að 25%), natríum karbónat, CAS nr. 497-19-8 (allt að 20%) og natríum silíkat, CAS nr. 1344-09-8 (allt að 20%).

Þvottaefni fyrir föt – 1 kg Varúð

 

Veldur alvarlegri augnertingu

BERIST EFNIÐ Í AUGU: Skolið varlega með vatni í nokkrar mínútur. Fjarlægið snertilinsur ef það er auðvelt. Skolið áfram. Leitið læknis.

Geymist þar sem börn ná ekki til

Efnasalan, Reykjavík, sími: 111-1111

Úðabrúsar

Algeng skyldubundin merking á úðabrúsa sem inniheldur drifefni úr própani og bútani verður eftirfarandi (miðað við að engin önnur hættuleg efni séu í vörunni):

Hætta

Úðabrúsi með afar eldfimum efnum.

Þrýstihylki: Getur sprungið við upphitun.

Ekki má gata eða brenna hylki jafnvel þótt þau séu tóm.

Haldið frá hitagjöfum, heitum flötum, neistagjöfum, opnum eldi og öðrum íkveikivöldum.

Reykingar bannaðar.

Má ekki úða á opinn eld eða annan hita- og neistagjafa.

Hlífið við sólarljósi.

Hlífið við hærri hita en 50 °C.

Geymist þar sem börn ná ekki til