Sótthreinsiefni

Sæfivörur til sótthreinsunar þurfa markaðsleyfi!

Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sótthreinsiefni, sem eru boðin til sölu eða notuð á Íslandi, mega nú eingöngu innihalda virk efni, sem eru í áhættumati eða hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem um ræðir (sjá yfirlit yfir vöruflokka). Þegar öll virk efni í vörunni hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem hún fellur í þarf að sækja um markaðsleyfi fyrir vöruna. 

Fyrstu virku efnin fyrir þennan vöruflokk voru samþykkt árið 2014 og áætlað er að áhættumati allra virkra efna, sem falla undir hann, verði lokið árið 2019. Eftir því sem fleiri virk efni eru samþykkt, þurfa fleiri sæfivörur markaðsleyfi og því eru þessar reglur smám saman að hafa meiri áhrif á markaðssetningu vörutegunda á Íslandi.  

Nú þegar þurfa margar sæfivörur, sem falla í aðalflokk 1, sótthreinsiefni, markaðsleyfi en áætlað er að árið 2021 eigi allar þessar vörur að vera komnar með markaðsleyfi. Þegar virkt efni til notkunar í sæfivörum hefur verið samþykkt, skal sækja um markaðsleyfi fyrir þeim vörum sem innihalda umrætt virkt efni eða að öðrum kosti, að taka þær úr sölu og hætta notkun þeirra.

Sæfivörur skiptast í 4 aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, sæfivörur til að nota við varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur.
Undir aðalflokk 1, sótthreinsiefni, falla 5 vöruflokkar sem eru:

1. Hreinlætisvörur fyrir fólk.
2. Sótthreinsiefni og þörungaeyðar sem ekki eru ætluð til þess að bera beint á menn eða dýr.
3. Vörur sem notaðar eru til hreinlætis fyrir dýr.
4. Vörur sem notaðar eru við sótthreinsun svæða fyrir matvæli og fóður.
5. Vörur sem notaðar eru við sótthreinsun drykkjarvatns.

Sæfivörureglugerðin hefur einnig í för með sér að birgjar sem selja virk efni til framleiðslu á sótthreinsivörum þurfa að vera á lista ESB yfir birgja sem eru samþykktir fyrir virk efni innan þess vöruflokks sem sótthreinsiefnið tilheyrir.

Reglugerð um sæfivörur er hluti af því regluverki sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er því innleidd í heild sinni hér á landi. Ísland er lítið markaðssvæði og því viðbúið að þessar breytingar muni hafa talsverð áhrif á vöruúrval hér á landi.

Samþykkt virk efni og vörur með markaðsleyfi

Listi yfir samþykkt virk efni:
Listi ECHA yfir samþykkt virk efni, sjá hér og hér.  
Listi yfir vörur með markaðsleyfi 
Listi ECHA yfir vörur með markaðsleyfi 

Bönnuð virk efni:

Listi yfir bönnuð virk efni.
Listi ECHA yfir bönnuð virk efni, sjá hér og hér

 Sjá einnig :