Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Alþjóðlegt samstarf

 

Stokkhólmssamningurinn

Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni er alþjóðlegur sáttmáli frá 22. maí 2001 með það markmið að vernda heilsu manna og umhverfið gegn efnum sem brotna hægt niður í náttúrunni, dreifast langar vegalengdir um jörðina, safnast í fituvefi lífvera og hafa skaðleg áhrif á heilsu eða á umhverfið. Talið var mikilvægt að hafa samræmdar alþjóðlegar aðgerðir gagnvart þessum efnum þar sem þau eru ekki staðbundin heldur geta þau ferðast langar vegalengdir og finnast alls staðar á jörðinni hvort sem um ræðir ósnert svæði, svo sem heimskautin, eða svæði þar sem efnin eru framleidd og/eða notuð. Þar af leiðandi getur engin ein ríkisstjórn verndað þegna sína eða umhverfi gegn slíkum efnum heldur er um alþjóðlegt vandamál að ræða.

Samningurinn er talinn vera mikilvægur áfangi í umhverfismálum vegna þess að reynt er að takast á við rót vandans og fjallað er um aðgerðir til að koma í veg fyrir notkun og framleiðslu eða myndun efnanna. Við upphaf samningsins var einblínt á að takmarka og/eða banna 12 efni sem metin voru þau mikilvægustu til að takast á við, en nú eru þau 30 talsins. Efnin eru talin upp í viðaukum við samninginn til þess að tiltölulega auðvelt sé að bæta við efnum án þess að breyta samningnum sjálfum.

Viðaukarnir sem efnin eru skráð í eru þrír talsins:

  • Viðauki A (stöðvun notkunar og framleiðslu),
  • Viðauki B (takmarkanir á notkun og framleiðslu),
  • Viðauki C (draga úr eða stöðva losun efna vegna framleiðslu sem er ekki af ásetningi).

Því næst er hægt að skipta efnunum upp í flokka eftir notkun þeirra eða framleiðslu án ásetnings og eru flokkarnir alls fjórir:

  1. Plöntuverndarvörur (t.d. aldrín, díeldrín, endrín, klórdan, heptaklór, HCB, mírex og toxafen) sem hætta skal notkun og framleiðslu á, nema í sérstökum undantekningartilvikum.
  2. Sæfivörur (t.d. DDT) sem gegna m.a. hlutverki í baráttu gegn malaríu.
  3. Efni notuð í iðnaði (t.d. HCB, PCB og heptaklór).
  4. Þrávirk lífræn efni sem verða til án ásetnings t.d. við iðnaðarframleiðslu eða ófullkomna sorpbrennslu (díoxín, fúrön og HCB).

Ekki einungis fjallar samningurinn um framleiðslu, notkun og efni sem verða til án ásetnings heldur einnig ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun frá birgðum og úrgangi þar sem tryggja skal að efnin séu meðhöndluð með þeim hætti að heilsu manna og umhverfi stafi ekki hætta af. Þar að auki er fjallað um upplýsingaskipti á milli aðildarríkja til að upplýsa og fræða almenning; rannsóknir, þróun og eftirlit; tæknilega og fjárhagslega aðstoð iðnríkja til þróunarríkja þar sem Alþjóðlega umhverfissjóðnum er falið að hafa milligöngu um fjárhagsaðstoðina.

Nánar um Stokkhólmssamningin og fréttir tengdar honum má finna á heimasíðunni skrifstofu samningsins, pops.int.