Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stofnun vörslureiknings

Stofnun vörslureikninga rekstraraðila og flugrekenda í skráningarkerfið 

Eftirfarandi eru upplýsingar um ferli við stofnun vörslureiknings rekstraraðila og flugrekenda á Íslandi í skráningarkerfinu. Vinsamlegast athugið að vörslureikningur getur ekki verið stofnaður fyrr en öll nauðsynleg skjöl hafa borist Umhverfisstofnun og öll gjöld hafa verið greidd. Ófullnægjandi umsóknum verður vísað frá. 

1. Almennar upplýsingar

Viðurkenndir fulltrúar 

Fyrir hvern reikning skulu vera a.m.k. tveir viðurkenndir fulltrúar. Viðurkenndi fulltrúinn hefur aðgang að vörslureikningi rekstraraðila eða flugrekanda í skráningarkerfinu og hefur leyfi til þess að hefja ferli s.s. skila losunarheimildum og færa losunarheimildir fyrir hönd reikningshafans. 

Mögulegt er að skipa fleiri en tvo viðurkennda fulltrúa fyrir hvern reikning. Þá er einnig mögulegt að skipa viðurkenndan viðbótarfulltrúa sem hefur einungis leyfi til þess að skoða reikninginn og samþykkja aðgerðir viðurkenndra fulltrúa, sé þörf á samþykki fyrir aðgerð. Leyfilegt er að skipa að hámarki 6 viðurkennda fulltrúa. 

Vinsamlegast athugið að ákveðnar aðgerðir í kerfinu krefjast þess að tveir viðurkenndir fulltrúar framkvæmi þær (eða einn viðurkenndur fulltrúi og einn viðurkenndur viðbótarfulltrúi, sjá neðar). Þessar aðgerðir eru: 

  • Viðbætur á skrá yfir áreiðanlega reikninga (e. Trusted account list) 
  • Skil á losunarheimildum (e. surrender of allowences) 
  • Ógilding losunarheimilda eða ógilding Kýótóeininga (e. cancelling) 
  • Millifærslur á losunarheimildum (e. transfer of allowences) 

Viðurkenndur viðbótarfulltrúi 

Leyfilegt er að skipa viðurkenndan viðbótarfulltrúa á vörslureikning, það er þó ekki nauðsyn. Viðurkenndur viðbótarfulltrúi hefur aðgang að vörslureikningi og getur samþykkt aðgerðir sem framkvæmdar eru af viðurkenndum fulltrúa reiknings. Viðurkenndur viðbótarfulltrúi virkar því sem annar undirritunaraðili á vörslureikningi fyrir aðgerðir sem þarfnast samþykkis og er það gert í þeim tilgangi að auka öryggi. 

Leyfilegt er að skipa fleiri en einn viðurkenndan viðbótarfulltrúa en þó að hámarki 10. 

Vinsamlegast athugið að þegar viðurkenndur viðbótarfulltrúi hefur verið skipaður á reikning er oftast þörf á því að hann samþykki aðgerðir eins og: 

  • Færslur á losunarheimildum milli reikninga 
  • Skil á losunarheimildum 

2. Umsóknarferli við stofnun vörslureiknings rekstraraðila

Áður en hægt er að óska eftir stofnun vörslureiknings rekstraraðila eða flugrekanda í skráningarkerfinu þarf að fara í gegnum eftirfarandi atriði:

Gjöld 

Umhverfisstofnun innheimtir eftirfarandi gjöld vegna stofnunar vörslureiknings rekstraraðila í skráningarkerfinu. Upphæðir má finna í nýjustu gjaldskrá Umhverfisstofnunar hverju sinni.

  • Stofngjald
  • Árgjald

Árgjald vegna reiknings reiknast frá þeim degi þegar reikningur er stofnaður. Eingöngu er heimilt að innheimta árgjald margfaldað með X/365 þar sem X stendur fyrir fjölda þeirra daga sem eftir eru í viðkomandi ári þegar reikningur er stofnaður. 

Umhverfisstofnun gefur út og sendir reikning á umsækjendur vörslureiknings rekstraraðila í skráningarkerfinu. Ekki er unnt að opna vörslureikning rekstraraðila fyrr en greiðsla hefur borist. 

3. Tilskilin gögn

Eftirfarandi gögn þurfa að berast Umhverfisstofnun áður en vörslureikningur rekstraraðila í skráningarkerfinu er opnaður. 

Skjöl sem krafist er af lögaðila (fyrirtæki, stofnun): 

  • 1. Umsóknareyðublað til útfyllingar
  • 2. Afrit af skráningarvottorði 
  • 3. Listi yfir ábyrgðaraðila lögaðila (fyrirtæki, stofnunar), einhver þessara aðila verða að skrifa undir þau skjöl sem krafist er undirskriftar á.
  • 4. Umboð handa viðurkenndum fulltrúum og viðurkenndum viðbótarfulltrúum.

Skjöl sem krafist er vegna viðurkenndra fulltrúa og viðurkenndra viðbótarfulltrúa 

  • 1. Gögn sem staðfesta auðkenni tilnefnda aðilans og sem geta verið staðfest afrit af öðru hvoru af eftirfarandi: 
  • a) vegabréfi eða kennivottorði sem gefið er út af ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahags- og framfarastofnuninni, 
  • b) einhverju öðru vegabréfi, sem eitthvert sendiráð ESB hefur vottað að sé gilt. 
  • 2. Gögn sem staðfesta lögheimili tilnefnda aðilans, geta verið staðfest afrit af einhverju af eftirfarandi: 
  • a) persónuskilríki, ef lögheimili viðkomandi kemur þar fram, 
  • b) einhverjum öðrum skilríkjum, sem hið opinbera gefur út, þar sem er heimilisfang þess sem hefur fasta búsetu, 
  • c) yfirlýsingu frá staðaryfirvöldum sem staðfesta fasta búsetu tilnefnda aðilans ef landið, þar sem fasta búsetan er, gefur ekki út persónuskilríki þar sem heimilisfang þess er hefur fasta búsetu er tilgreint, 
  • d) einhverju öðru skjali sem er að öllu jöfnu tekið gilt í aðildarríki stjórnanda reiknings sem sönnun fyrir fastri búsetu tilnefnda aðilans. 
  • 3. Sakavottorð tilnefnda aðilans 

Öll tilskilin skjöl skulu send rafrænt til Umhverfisstofnunar, netfangið: ets-registry@ust.is. Ef pappírseintak er einnig sent má senda það á:

Umhverfisstofnun
Berist til: Skráningarkerfi ETS
Suðurlandsbraut 24
108 Reykjavík

Frá því að öll tilskilin gögn hafa borist til Umhverfisstofnunar getur tekið allt að 20 virka daga að opna vörslureikning rekstraraðila í skráningarkerfinu eða láta umsækjanda vita sé umsókn ófullnægjandi. 

Nánari upplýsingar í síma 591 2000 eða netfang ets-registry@ust.is.