Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Um Skráningarkerfi ESB

Photo by Carlos Muza on Unsplash

Skráningarkerfi ESB  með losunarheimildir er vettvangur þar sem bæði fyrirtæki og einstaklingar geta átt reikninga sem geyma losunarheimildir, sem gefnar eru út í ETS kerfinu, í þeirra eigu.  Þeim fyrirtækjum sem falla undir tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi með losunarheimildir er skylt að eiga sérstaka vörslureikninga í skráningarkerfinu. Í raun virkar skráningarkerfið eins og netbanki, en reikningshafar geta millifært losunarheimildir sín á milli í samræmi við kaupsamninga. Fyrirtæki og einstaklingar, sem ekki hafa fengið úthlutað losunarheimildum í samræmi við ofangreinda tilskipun ESB, geta orðið sér úti um heimildirnar á uppboðum, í gegnum kauphallir, eða keypt beint af eigendum losunarheimilda utan skipulagðra markaða. 

Nánari upplýsingar um stofnun reikninga í skráningarkerfinu er að finna undir stofnun vörslureiknings hér: https://ust.is/atvinnulif/ets/skraningarkerfi/

 

Skráningarkerfið sem samanstendur af skráningarkerfum aðildarríkja ETS og viðskiptadagbók Bandalagsins (Community Independent Transaction Log - CITL) er kjarni viðskiptakerfisins. Skráningarkerfið tryggir nákvæmt bókhald allra losunarheimilda sem gefnar eru út vegna ETS en þar er skráð og fylgst með eignarhaldi heimilda á sama hátt og bankakerfi skráir eignarhald fjármagns.

Skráningarkerfið heldur utan um:

  • Losunarheimildir – alla flugrekendur og rekstaraðila sem falla undir gildissvið ETS kerfisins og alla endurgjaldslausa úthlutun losunarheimilda til þeirra
  • Reikninga fyrirtækja og einstaklinga sem eiga losunarheimildir
  • Millifærslu losunarheimilda á milli reikningseigenda
  • Vottaða árlega losun CO2 frá rekstraraðilum og flugrekendum
  • Árlegt uppgjör losunarheimilda þar sem hvert fyrirtæki verður að hafa gert upp nægjanlegt magn losunarheimilda sem jafngildir vottaðri losun þess árs

Hægt er að skoða upplýsingar um endurgjaldslausa úthlutun, reikninga og reikningseigendur á heimasíðu kerfisins .

 

Öll 31 ríkin sem taka þátt í ETS kerfinu eru aðilar að skráningarkerfinu. Allar millifærslur sem eiga sér stað eru háðar samþykki viðskiptadagbókar Evrópusambandsins (EUTL).

Ísland er aðili að skráningarkerfinu og hægt hefur verið að sækja um stofnun reiknings frá árinu 2012. Umsóknarferlið felur í sér skráningu á heimasíðu kerfisins og afhendingu skjala til Umhverfisstofnunar.

Aðgangur að íslenska hluta skráningarkerfisins er hér: https://unionregistry.ec.europa.eu/euregistry/IS/index.xhtml