Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Besta aðgengilega tækni (BAT)

Hvað er BAT?

BAT stendur fyrir „besta aðgengilega tækni“ eða best available techniques á ensku. BAT lýsir bestu aðgengilegu tækni til að draga úr umhverfisáhrifum og mengunarálagi þeirrar starfsemi sem hún nær yfir. 

Hvað eru BAT-niðurstöður?

BAT-niðurstöður eða niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni (e. best available techniques (BAT) conclusions; BATC) eru BAT sem hefur verið fastsett af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og eru mikilvægur liður í verklagi sem tilskipun 2010/75/EB um losun í iðnaði (IED) kveður á um. BAT-niðurstöður ná því til starfsemi sem fellur undir I. viðauka laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gefnar eru út nýjar BAT-niðurstöður reglulega og eru þær birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. BAT-niðurstöður eru svo teknar upp í EES-samninginn og innleiddar í reglugerð nr. 935/2018

Í ferlinu sem ákvarðar BAT-niðurstöður er gert ítarlegt BAT-tilvísunarskjal (e. BAT reference document; BREF) þar sem gerð er greining á mengun frá umræddri starfsemi. Niðurstöður þeirrar greiningar eru notaðar til að ákvarða mörk og tækni sem tilgreind eru í BAT-niðurstöðum. 

Hvað er besta fáanlega tækni?

Besta fáanlega tækni er nú til dags kölluð besta aðgengilega tækni en í þýðingum á BAT-niðurstöðum var best available techniques áður þýdd sem besta fáanlega tækni. Með lögum nr. 60/2017 um breytingu á lögum nr. 7/1998 var hugtakinu breytt, einkum þar sem skammstöfunin BAT er notuð um þetta hugtak.

Hvað hafa BAT-niðurstöður með starfsleyfi að gera?

Við gerð starfsleyfisskilyrða fyrir starfsemi í viðauka I og II laga nr. 7/1998 skal Umhverfisstofnun taka mið af BAT-niðurstöðum og skal stofnunin innan fjögurra ára frá birtingu þeirra tryggja að starfsleyfisskilyrði séu uppfærð miðað við þær. Heilbrigðisnefndir skulu jafnframt taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggja fyrir í ákvæðum um mengunarvarnir fyrir starfsemi í viðauka IV laga nr. 7/1998. 

BAT-greining

Rekstraraðilar með starfsemi sem fellur undir tilteknar BAT-niðurstöður þurfa að sýna fram á hvernig hún uppfyllir viðkomandi BAT-niðurstöður með því að gera greiningu á því hvernig þær eiga við um starfsemina og hvaða uppgefnu tækni þeir nota eða hyggjast nota í starfsemi sinni.

Hvar er hægt að finna BATC og BREF skýrslur?

Upplýsingar um útgefnar BATC og BREF skýrslur og þær sem eru í vinnslu er að finna á upplýsingasíðu Evrópuskrifstofunnar um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun (European IPPC Bureau).

Þær BAT-niðurstöður sem hafa verið þýddar á íslensku og innleiddar hér má sjá neðst á síðunni. Upplýsingar um BAT-niðurstöður sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn er að finna í gagnagrunni EES.

Önnur BAT

Norrænn BAT-faghópur hefur verið starfandi á vegum Norræna ráðherraráðsins undir vinnuhópi um hringrásarhagkerfi (NCE). Þessi hópur hefur gefið út skýrslur sem fjalla um BAT og eru þær ýmist framlag til evrópsku vinnunnar með gerð BREF skýrslna á vettvangi Evrópuskrifstofunnar eða sjálfstæðar BAT skýrslur.

Þá hefur Umhverfisstofnun notað leiðbeiningar um bestu aðgengilegu tækni fyrir malbiksframleiðslu sem gefnar eru út af Evrópskum samtökum malbiksframleiðenda (EAPA) þegar um er að ræða starfsleyfi fyrir framleiðslu á malbiki.