Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Börn

Allt í kringum okkur eru ýmis efni og efnablöndur sem hafa mismunandi áhrif á okkur. 

Börn eru mun næmari fyrir efnum í umhverfinu en fullorðnir og því getur verið mikilvægt að varast skaðleg efni á meðgöngu. Því miður geta vörur fyrir börn innihaldið efni sem geta verið skaðleg heilsu og umhverfi og því er best að kynna sér innihaldsefni og læra að þekkja þau sem á að varast. 

Hvað getum við gert?

Hreinlætisvörur

Best er að nota eins lítið af hreinlætisvörum eins og hægt er, s.s. rakakrem, sólarvörn, bossakrem, sápur, bleiur og blautþurrkur. Þessar vörur er auðvelt að finna umhverfisvottaðar. Svansvottun tryggir að vörur innihaldi ekki ofnæmisvaldandi-, hormónaraskandi- eða önnur skaðleg efni.

Leikföng

  • Er lykt af leikfanginu?
  • Er leikfangið klístrað?
  • Er leikfangið framleitt utan Evrópu?

Ef svarið við einhverju af ofantöldu er já, inniheldur leikfangið mögulega skaðleg efni.

Mest áhætta er í mjúkum plastleikföngum og rafmagnsleikföngum en í þeim er algengt að finnist hormónaraskandi efni og þungmálmar í of miklu magni. Dæmi um slík leikföng eru boltar, leikfangadýr og dúkkur. Gott er að miða við allt plast sem er mýkra en LEGO-kubbar. Því eldra sem leikfangið er því líklegra er að það innihaldi skaðleg efni.

Gömul leikföng og hlutir

Varast skal að leyfa börnum að leika með gamla hluti, t.d. gömul plastveski, skó eða ódýra skartgripi og glingur. Best er að nota náttúruleg efni í búningaleik og horfa gagnrýnum augum á aukahluti.

Litir og leir

Vanda skal valið á pennum, litum og fingralitum og einnig andlitsmálningu og naglalakki sem allt getur innihaldið skaðleg efni þótt vörurnar séu markaðssettar sérstaklega fyrir börn. Sama má segja um leir og slím en slíkt má auðveldlega búa til heima úr matvælum og öðrum skaðlausum efnum.  

Hlutir sem ekki eru leikföng en leikið er með 

Börn eru gjarnan hrifin af tökkum og laðast að því sem fullorðnir nota mikið fyrir framan þau, svo sem síma, lyklaborð og myndavélar. Stundum fá börn að leika sér með þessa hluti, sem er slæm hugmynd þar sem plastefnin sem notuð eru í raftæki uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til plastefnis í barnaleikföngum.

Snuð og pelar

Snuð, pelar og leikföng úr mjúku plasti geta innihaldið þalöt og Bisfenól-A sem geta valdið röskun á hormónajafnvægi líkamans og haft þannig áhrif á kynþroska og frjósemi. Því er mikilvægt að sneiða hjá slíkum vörum og spyrja afgreiðslufólk. Einnig er töluvert úrval af pelum úr gleri sem innihalda ekki skaðleg efni. 

Bleyjur og blautþurrkur

Áætlað hefur verið að hvert barn noti að meðaltali um 5.000 bleyjur á fyrstu árum ævinnar. Notkun taubleyja er góður valkostur út frá sóun og til að sporna við úrgangsmyndun. Einnig er mikið úrval af umhverfisvottuðum pappírsbleyjum á markaði, með því að velja vottaðar bleyjur má lágmarka umhverfisáhrif þeirra.

Mikið úrval er af umhverfisvottuðum blautþurrkum en þær innihalda ekki ilm- og rotvarnarefni (paraben) sem geta haft hormónaraskandi áhrif.

Tengt efni: