Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Viðbrögð við bráðamengun

Með bráðamengun er átt við skyndilegan atburð sem krefst tafarlausra viðbragða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Skipulag sjálfra viðbragðanna er hins vegar skipt eftir staðsetningu mengunaróhappsins. Slökkviliðsstjóri á hverjum stað hefur með höndum stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.  Hafnarstjórar annast viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða en Umhverfisstofnun ber ábyrgð á viðbrögðum vegna mengunar hafs og stranda þar fyrir utan. Nánar er kveðið á um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda í reglugerð nr. 1010/2012.

Skilgreining á bráðamengun samkvæmt lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda er eftirfarandi: Mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.

Bráðamengun utan hafnarsvæða

Við óhapp sem leiðir til eða getur leitt til bráðamengunar hafs og stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun getur farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynni Umhverfisstofnun. Stofnuninni er jafnframt heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. 

Umhverfisstofnun, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands hafa samþykkt aðgerðaáætlun um viðbrögð við bráðamengun utan hafnarsvæða . Áætlunin fjallar um hvernig eigi að bregðast á við þegar óhöpp verða á sjó er varða skip í efnahagslögsögu Íslands sem ógna siglingaöryggi eða hætta er á að valdi umhverfisstjóni og verkaskiptingu  á milli stofnananna. Áætlunin er sameiginlegt stjórntæki Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands  og Samgöngustofu  og er ætlað að tryggja fumlaust verklag og framkvæmd viðbragða vegna bráðamengunar, þegar hætta er talin á bráðamengun sem og rétta framkvæmd við notkun skipaafdrepa. Skipaafdrep, sem Samgöngustofa útnefnir, eru annars vegar innan hafna (neyðarhöfn) og hins vegar skjólgóð svæði sem eru tilgreind utan hafna. Aðgerðaáætlunina er hægt að virkja á fjórum stigum, þ.e. 1) þegar atvik verður á sjó þar sem engin mengun er sjáanleg og engin hætta er talin á mengun, 2) þegar hætta er talin á mengun, 3) mengun er sýnileg og 4) þegar skip þurfa að leita í skipaafdrep. 

Bráðamengun innan hafnarsvæða

Hafnarstjóri ber ábyrgð á og annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðis og ber honum að grípa til hreinsunar og annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og vart verður við hana. Heilbrigðisfulltrúi, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með hreinsunaraðgerðum og ákveður í samráði við Umhverfisstofnun hvenær árangur af hreinsun er nægur. Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnunni heimilt að hlutast til um þær.

Hver höfn skal eiga og reka mengunarvarnabúnað og ber viðkomandi höfn ábyrgð á viðhaldi búnaðarins og endurnýjun hans. Þó er heimilt að hafnir á tilteknu svæði eigi og reki saman mengunarvarnabúnað. Heimilt er að fela slökkviliðsstjóra umsjón með mengunarvarnabúnaði og stjórn á vett­vangi í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Höfnum er skipt í þrjá flokka hvað varðar viðbrögð og mengunarvarnabúnað vegna bráða­mengunar samkvæmt reglugerð nr. 1010/2012. Flokkun hafna er eftirfarandi:

Flokkur I:
Stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir. Til þessara hafna koma olíuskip sem geta borið meira en 3.000 tonn af olíu og/eða skip stærri en 5.000 brúttótonn. Við höfnina er olíubirgðastöð og/eða margvísleg mengandi starfsemi.
Flokkur II:
Meðalstórar fiskihafnir og vöruflutningahafnir þar sem skip allt að 5.000 brúttótonn eða allt að 100 m löng koma alla jafna að bryggju.
Flokkur III:
 Smábáta- og skemmtibátahafnir þar sem bátar styttri en 25 m leggjast yfir­leitt að bryggju.

 

Hver höfn skal að lágmarki eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við flokkun hafnar og áhættumat hennar. Lág­marks­mengunarvarnabúnaður innan hafna eftir flokkum hafna, skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1010/2012, skal vera eftir­farandi:

Flokkur I:
150-300 m af flotgirðingu, 1 olíuupptökutæki, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur II:
100-200 m af flotgirðingu, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur III:

 Ísogsefni.

Stefnumótun Íslands um notkun dreifiefna í íslenskri mengunarlögsögu

Tilgangurinn með viðbrögðum við olíumengun er að draga úr þeim skaða sem slík mengun getur valdið. Skaðinn getur verið vistfræðilegur, svo sem á sjófugla og viðkvæm búsvæði, eða efnahagslegur, svo sem á sjávarútveg eða ferðaþjónustu. Notkun dreifiefna er ein besta aðferðin til að bregðast við olíumengun við ákveðnar aðstæður.