Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Úrgangur

Samkvæmt lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda er óheimilt að losa sorp og farmleifar frá skipum á hafsvæði innan tólf sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Óheimilt er að losa í hafið þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í hafinu. Heimilt er að losa kvarnaðan matarúrgang utan þriggja sjómílna frá landi.

Óheimilt er að brenna úrgang eða önnur efni á hafi úti. Heimilt er þó að brenna eigið sorp í þar til gerðum ofnum í samræmi við reglur Alþjóðasiglingastofnunarinnar (IMO) þar sem tekið skal tillit til ákvæða í gildandi samningum um brennslu úrgangsefna á hafi úti og þeirra áhrifa sem brennslan hefur á umhverfið.

Ísland hefur staðfest viðauka V við MARPOL samninginn, en sá viðauki fjallar um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Samkvæmt ákvæðum viðaukans er reglan sú að bannað er að losa úrgang í hafið nema það sé sérstaklega heimilt. Heimilt er að losa kvarnaðan matarúrgang utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar og ókvarnaðan matarúrgang utan tólf sjómílna frá grunnlínum landhelginnar. Einungis má losa í hafið utan 12 sjómílna farmleifar sem ekki eru skaðlegar umhverfi hafsins og ekki reynist unnt að endurheimta við affermingu með hefðbundnum leiðum. Einungis má losa í hafið hreinsiefni eða aukefni sem notuð eru í lest, á þilfari og þvottavatn af yfirborðsflötum ef þau innihalda ekki efni sem geta verið skaðleg umhverfi hafsins. Dýrahræ skal losa í sjó eins langt frá landi og hægt er þegar skipið er á ferð, en þó skilyrði að um sé að ræða dýr sem flutt hafa verið sem farmur og hafa dáið um borð. Strangari reglur gilda um losun úrgangs í hafið innan sérhafsvæða.

Allan annan úrgang, þ. á m. plastefni, úrgang frá vistarverum, matarolíu, ösku úr brennsluofnum, rekstrarúrgang og veiðarfæri, er óheimilt að losa í hafið. 

Undantekningar gilda ef losun er nauðsynleg vegna öryggis skips eða þeirra sem eru um borð, losun leiðir af skemmdum á skipi eða tækjum þess eða fiskinet úr gerviefnum tapast vegna óhappa. Ávallt skal þó grípa til allra þeirra varrúðarráðstafana sem með sanngirni krefjast má til að koma í veg fyrir slíka losun.  

Hér er að finna yfirlit yfir ákvæði um losun úrgangs í hafið í viðauka V við MARPOL samninginn.

Um borð í sérhverju skipi sem er 400 brúttótonn eða stærra og í sérhverju skipi sem er skráð til að flytja 15 manns eða fleiri, skal vera sorpdagbók. Skal sorpdagbókin vera samkvæmt þeirri fyrirmynd sem mælt er fyrir um í viðbæti við V. viðauka MARPOL-samningsins. Umhverfisstofnun gefur út sorpdagbók fyrir íslensk skip og er hægt að nálgast eintak af henni í afgreiðslu stofnunarinnar.

Sérhvert skip með mestu lengd 12 metra eða meira skal hafa uppi veggspjöld sem upplýsa áhöfn og farþega um þær kröfur sem gerðar eru vegna losunar sorps. Veggspjöldin skulu vera á íslensku. Þegar um er að ræða skip sem ætluð eru til siglinga milli landa skulu veggspjöldin einnig vera á ensku.

Um borð í sérhverju skipi sem er 100 brúttótonn eða stærra og í sérhverju skipi sem er skráð til að flytja 15 manns eða fleiri, skal vera áætlun í sorpmálum sem áhöfnin skal fylgja. Í þessari áætlun skulu vera skrifleg fyrirmæli um söfnun, geymslu, vinnslu og losun sorps, auk fyrirmæla um notkun tækja um borð. Í henni skulu jafnframt vera upplýsingar um það hver sé tilnefndur til að bera ábyrgð á að framfylgja áætluninni. Áætlunin skal vera á samskiptamáli áhafnarinnar og í samræmi við þær leiðbeiningareglur sem IMO hefur útbúið (sjá nánar hér).

Nánari upplýsingar um ákvæði er varða losun úrgangs í hafið er að finna í viðauka V við MARPOL samninginn. IMO hefur gefið út leiðbeiningar um framkvæmd viðaukans (sjá nánar hér).