Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Næringarefni í sjó

Næringarefni, eða uppleyst ólífrænt köfnunarefni og fosfór, eru nauðsynleg til vaxtar og viðhalds svifþörunga sem eru fyrsta stig fæðukeðjunnar í sjó. Þessi efni hafa náttúrlegan bakgrunnsstyrk í sjónum en fylgjast þarf með hvort að athafnir manna hafi áhrif þar á. Ofauðgun (e. eutrophication) getur orðið þar sem losun þessara efna til sjávar er mikil og vatnsskipti ekki næg. Eitt af markmiðum OSPAR samningsins er að fylgjast með styrk næringarefna í sjó til að vita hvort óæskileg umhverfisáhrif stafa af þeirri losun sem á sér stað. 

Hér við land er það oftast köfnunarefni sem er takmarkandi næringarefni fyrir vöxt plöntusvifs. Landbúnaður, fiskeldi og skolplosun eru uppsprettur þessara efna og vöktun á Faxaflóa miðar að því að fylgjast með styrk næringarefna í grennd við stærsta þéttbýlissvæði landsins. Þar sem styrkur næringarefna í sjó tekur miklum breytingum með árstíma er valið að vakta styrk þeirra um hávetur þegar styrkurinn er í árlegu hámarki og þegar áhrif lífríkisins eru hvaða minnst. Frá árinu 2005 hefur styrkur nítrats og fosfats verið vaktaður af Hafrannsóknastofnun á stöðvum á Faxaflóasniði og er þetta gert í tengslum við vöktun stofnunarinnar á ástandi sjávar. Auk þessara efna er á þessum stöðvum mældur styrkur kísils og súrefnis ásamt eðliseiginleikum sjávarins. Stöðvarnar eru alls níu og ná frá Akranesi og fram yfir landgrunnsbrún. Niðurstöður mælinganna eru geymdar í gagnagrunni Hafrannsóknastofnunar og í gagnagrunni ICES. 

Myndin sýnir staðsetningu innstu fjögurra mælistöðvanna en niðurstöðurnar gefa ekki til kynna að nein vandamál sem tengjast næringarefnalosun séu til staðar. Nítratstyrkur lækkar þegar nær dregur landi sökum þess að þar er sjórinn undir áhrifum frá ferskvatnsfrárennsli en styrkur köfunarefnissambanda í því er mjög lágur.