Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Góð ráð til að minnka efnanotkun í garðinum

 

Allir ættu að kappkosta að halda efnanotkun í garðinum í lágmarki. Athugaðu að öll notkun eiturefna dregur úr líffræðilegri fjölbreytni í garðinum og fækkar nytjadýrum eins og köngulóm, sníkjuvespum og jarðvegsdýrum. Hér eru nokkur góð ráð til garðeigenda:

  1. Hafðu fjölbreyttan gróður í garðinum til að auka líkurnar á því að þar byggist upp fjölbreytt dýralíf. Ýmsir fuglar og gagnleg skordýr geta aðstoðað í baráttunni við skaðvalda á plöntum, því fjölbreyttara sem lífríkið er, þeim mun betra!
  2. Týndu skaðvaldana af plöntunum með höndunum í þeim tilfellum sem það er hægt,  t.d. lirfur sem herja á berjarunna og snigla undir salatinu.
  3. Notaðu aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna til að uppræta illgresi t.d. með því að reita það í höndunum, nota verkfæri eða sprauta á það með heitu vatni.
  4. Komdu í veg fyrir að illgresið nái sér á strik með því að rækta þekjandi plöntur og nota yfirlagsefni til þekja jarðveginn.
  5. Sprautaðu vatni á plönturnar til að vinna á trjámaðki þegar hann herjar á plönturnar snemma sumars. Maðkurinn fellur á jörðina og verður fuglum að bráð.
  6. Notaðu gildrur til að veiða snigla í.
  7. Beittu skiptiræktun í matjurtagarðinum með því að rækta mismunandi tegundir á hverjum stað á hverju ári, t.d. kartöflur í eitt tímabil, salat það næsta, svo tegundir sem vaxa beint upp af fræi og þannig koll af kolli. Plöntur nýta næringarefni í jarðveginum á mismunandi vegu og því getur skiptiræktun aukið frjósemi jarðvegsins.
  8. Notaðu nytjadýr í staðinn fyrir skordýraeyða í gróðurhúsum, þú getur keypt nytjadýr í sumum  garðyrkjuverslunum.
  9. Til varnar gegn sveppasjúkdómum er mikilvægt að velja réttan efnavið því sumar tegundir plantna hafa myndað ákveðið þol gegn sjúkdómum. Eins skiptir hreinlæti mjög miklu máli ef notuð eru áhöld í garðverkin.
  10. Sumir sveppasjúkdómar þurfa að nýta sér fleiri en eina plöntutegund sem hýsil til þess að vaxa og í þeim tilfellum er ekki ráðlegt að hafa þær plöntutegundir saman í garðinum. Þetta á t.d. við um lerki og ösp þar sem ryðsveppurinn þarf á báðum þessum tegundum að halda fyrir lífsferil sinn.