Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Áhrif úðunar á lífríki garðsins

Mikilvægt er að átta sig á því að skordýraeyðar drepa öll skordýr sem þeir lenda á, hvort sem þau eru skaðleg eða gagnleg. Hin gagnlegu skordýr lifa oft á tíðum á meindýrunum sem eru að hrjá plönturnar okkar og leggja okkur því lið í baráttunni gegn þeim, auk þess sem þau geta sjálf verið fæða fyrir önnur dýr. Mörg skordýr eru mikilvæg fæða fyrir garðfugla og með því að úða gegn þeim erum við að draga úr fæðuframboði fyrir fuglana sem við viljum gjarnan hafa í kringum okkur.

Svipaða sögu má segja af illgresiseyðum, en margir þeirra drepa einnig annan gróður heldur en þann sem ætlað er að útrýma. Þannig getur úðun haft neikvæð áhrif á þann gróður sem við viljum hafa í garðinum. Þó eru til sérvirkir illgresiseyðar og þarf því að vanda vel val á illgresiseyðum ef gripið er til notkunar á þeim. Lífríki garðsins er þannig samofið og með úðun erum við að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar.