Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ekki þarf alltaf að úða garðinn

Margar trjá- og runnategundir sem verða fyrir skemmdum af völdum meindýra ná sér aftur á strik þótt ekkert sé úðað vegna þess að ný laufblöð vaxa fram og fela þau sem hafa skemmst. Þetta á til dæmis við um birki. Aðrar tegundir geta aftur á móti orðið fyrir miklum skemmdum af völdum meindýra sem þær ráða ekki við að lagfæra og því reynist í vissum tilfellum nauðsynlegt að beita úðun til að verja þær. Mikilvægt er þá að úða einungis þær tegundir sem bera meindýr eða sjúkdóma til þess að raska sem minnst vistkerfi garðsins.

Í sumum tilfellum getur verið gagnslaust að úða þó svo að meindýrin séu sýnileg vegna þess að þau geta vafið sig inn í laufblöð og sum þeirra lifa inni í laufblöðum og hola þau að innan eins og t.d. birkikemba og birkiþéla sem herja á birki. Ef um er að ræða sveppasjúkdóma getur oft á tíðum reynst erfitt að beita úðun með sveppaeyðum vegna þess að sveppirnir lifa oft inn í plöntuhlutum eða laufblöðum og verða ekki sýnilegir fyrr en seint á lífsferli sínum t.d. eins og ryðsveppir í ösp og víði og mjöldögg á ýmsum tegundum af toppum.